Ég kom að tveggja ára syni mínum síðastliðinn laugardag, eftir að tilkynnt var um samkomubann en áður en það skall á, þar sem hann var búinn að tússa stóran hluta líkama, andlits og byrjaður á veggjum. Akkúrat þarna rann það upp fyrir mér, að framundan gætu legið nokkrar erfiðar hraðahindranir með aukinni inniveru okkar fjölskyldunnar. Það gæti stefnt í glundroða. Í kringum mig eru flestir að hugsa nákvæmlega það sama.


Samfélagslegt hobbí

Ég fékk því þessa flugu í höfuðið, að koma upp einhvers konar síðu, þar sem hægt væri að kúpla sig frá panikkinu og einbeita sér að því jákvæða og skemmtilega, þó ekki væri nema í smá stund. Ég fékk þessa pælingu eiginlega á heilann þarna um helgina og ræddi við nokkra í kringum mig um hugmyndir.

Úr varð að ég náði að plata Þórlind Kjartansson með mér. Við kýldum þessa Facebook-síðu því í gang og ætlum svo að sjá hvort hægt sé að gera eitthvað meira úr þessu – svona sem samfélagslegt hobbí og kannski eitthvað smá gagn fyrir sálartetur okkar og annarra,“ útskýrir Heiðrún Lind.

Hún segir viðbrögðin hafa farið fram úr sínum björtustu vonum. „Ég setti markið á mömmu og kannski einhverja fleiri ættingja sem myndu tengjast fyrir tæknilega slysni. Meðlimir eru að nálgast 1.900 núna og lífið á síðunni eru eins og í sumarbúðum – ekkert nema stuð.“

Aðspurð hvaða áhrif aðgerðir undanfarinna daga og vikna hafi haft á hana segist Heiðrún finna mest fyrir þeim í starfi sínu.

„Ég reyni þar, ásamt 15 manna teymi SFS, að gera sem mest gagn fyrir íslenskan sjávarútveg í mjög krefjandi aðstæðum. Það er erfitt að selja ferskan íslenskan fisk erlendis þegar fólk má ekki fara út úr húsi, veitingastaðir eru lokaðir, hótel eru lokuð og fiskborð stórverslana loka. Svo hefur maður því miður þurft að draga úr samskiptum við foreldra og tengdaforeldra, þannig að maður beri ekki einhverja óværu í þau. Annars gengur ágætlega að þvo á sér hendurnar og láta lífið ganga sinn vanagang.“


Markmiðið að koma betri út


Heiðrún Lind segist fylgja fyrirmælum sérfræðinga í einu og öllu. „En það má ekki gleyma þeim hluta tilmælanna, að lífið heldur jú áfram. Öll él styttir upp um síðir. En á meðan élið gengur yfir ætla ég að einbeita mér að því jákvæða. Ég ákvað að setja mér fjögur verkefni, sem öll miða að því að ég komi betur út úr þessu ástandi sem manneskja, móðir, maki, dóttir og sem hluti af samfélaginu. Ég sá í viðtali við sérfræðing í ónæmislækningum, að þetta er kallað ónæmisdekur. Ég læt það liggja milli hluta og tel raunar að þetta hafi víðtækari áhrif en svo.

Fjögurra vikna verkefni Heiðrúnar Lindar

Svefn

Ná hið minnsta sjö tíma samfelldum svefni hverja nótt. Þetta verður svo sem ekki flókið – ég hrýt í bíó. En langir vinnudagar og barnauppeldi setja alltaf eitthvað strik í reikninginn, það er eins og það er.

Andleg líðan

Að skjátími verði innan við 45 mínútur á dag, að meðaltali á viku. Þetta verður erfitt. Mjög erfitt.

Mataræði

Borða fisk hið minnsta fjórum sinnum í viku sem kvöldmáltíð. Íslenskur fiskur er bara svo geggjaður! Og svo vinn ég reyndar fyrir þá sem veiða fiskinn. Minna má það því varla vera!

Hreyfing

Hlaupa alls 100 km á næstu fjórum vikum. Ég svitna við það eitt að segja þetta upphátt!

Það er engin sérstök regla í þessu, engar refsingar, engin keppni. Ef þetta tekst, þá væri það geggjað og ef ekki, þá verður ekki heimsendir - held ég.

Ekki vanur hlaupari

Eins og glöggir hafa tekið eftir þá er eitt markmiðanna að hlaupa 100 kílómetra á fjórum vikum en Heiðrún Lind segist ekki vera vanur hlaupari. „Nei, maður lifandi ég hleyp eiginlega aldrei, nema þá helst til að hita upp og taka stöku spretti á hlaupabrettinu í Laugum.

Eftir að veiran fór að dreifa sér, hef ég hins vegar minnkað verulega ferðirnar í Laugar, því miður, og þar af leiðandi hreyft mig minna. Og þá er ekki annað í stöðunni en að reima á sig hlaupaskóna og njóta þess að hlaupa í brakandi fersku og veirulausu lofti. Ég veit ekkert hvernig ég ætla að gera þetta, öðruvísi en að brjóta þessa 100 km upp í vikumarkmið. Verkefnið er ekki flókið – stærsta áskorunin felst í því að koma sér upp úr sófanum og út! Ef það tekst, þá spæni ég þessum 100 km upp.“