Konu, búsettri á Akureyri, verður gert að sæta níu mánaða fangelsi fyrir að hafa með röng­um framb­urði hjá lög­regl­u, komið því til leiðar að grunur um alvarlegt refsivert athæfi beindist að fyrverandi kærasta hennar, hann handtekinn, vistaður í fangaklefa yfir nótt, látinn sæta nálgunarbanni og gert að veita lögreglu aðgang að persónulegum upplýsingum sínum.

Var konan ákærð og dæmd fyrir rangar sakargiftir með því að hafa með framburði sínum reynt að koma því til leiðar að maður­inn yrði dæmd­ur fyr­ir hús­brot, lík­ams­árás og frels­is­svipt­ingu.

Dómur þessa efnis var kveðinn upp í Héraðsdómi Norðurlands eystra fyrr í þessum mánuði.

Grét blóðug fyrir utan hjá nágranna

Lögregla fékk fyrst upplýsingar um málið þegar konan hafi verið grát­andi fyr­ir utan hjá ná­granna sín­um. Hann hafi klippt af kon­unni bensli og að hún hafi ekki óskað eft­ir aðstoð lög­reglu.

Konan lýsti því maðurinn, sem hún sagði fyrr­ver­andi kær­asta sinn, hafi áreitt hana mikið eftir sambandsslit þeirra, bæði á heimili hennar en einnig gegnum síma. Sagði hún þau hafa átt í ástarsambandi í um hálft ár og að um ár væri liðið frá sambandsslitunum.

Lögregla ræddi nánar við konuna á heimili hennar en þá hafði nágranni sinnt henni, klippt af henni benslin. Áverkar hafi verið á úlnlið konunnar sem hafi verið grátandi og í miklu uppnámi.

Í fyrstu skýrslu konunar hjá lögreglunni sagði konan að fyrrverandi kærasti hennar hafi ruðst inn á heimili hennar, tekið hana hálstaki tvisvar og skipað henni að setjast á stól og bundið hendur hennar með strappbandi. Auk þess sakaði konan manninn um að hafa áreitt sig og og frelsissvipt í langan tíma.

Lögð inn á geðdeild vegna bugunar

Konan var svo flutt á sjúkrahús sama kvöld. Í áverkavottorði kemur fram að konan hafi haft haft áverka á hægri úlnlið, verið þreytt og viljað fara heim að sofa en sagst mundi koma aftur daginn eftir. Hún hafi svo leitað á bráðamóttöku 17. febrúar og sagst vera búin á því andlega. Þessi líkamsárásarsaga og langvarandi eftirköst aðgerðar hafi valdið því að hún væri komin að bugun og lítið sem ekkert getað sofið. Hún hafi verið lögð inn á geðdeild eftir samráð við geðlækni.

Maðurinn var handtekinn síðar sömu nótt en var látinn laus síðdegis daginn eftir, þegar skýrsla hafði verið tekin af honum. Honum var gert að sæta nálg­un­ar­banni við kon­una í sex mánuði. Það nálgunarbann var þó fellt úr gildi tíu dög­um síðar.

Ekkert tengdi manninn við málið

Lögreglumaðurinn sem ræddi við konuna og nágranna hennar og annaðist rannsókn málsins, gaf skýrslu fyrir dómi. Hann lýsti því að hafa strax í upphafi staldrað við lýsingar ákærðu af notkun dragbandsins. Hann hafi þó litið málið alvarlegum augum, enda hafi ákærða lýst alvarlegri líkamsárás og frelsissviptingu.

„Rannsókn hafi svo leitt í ljós að ekkert tengdi ákærða við þetta, nágrannar hafi engin læti heyrt frá íbúð ákærðu og gögn hafi ekki stutt það að brotaþoli hefði setið um eða áreitt ákærðu. Vendipunktur í rannsókninni hafi verið þegar nágrannar lýstu því að ákærða hafi komið til þeirra daginn eftir, í uppnámi, með dragband um úlnlið en ákærði hafi á þeim tíma verið í fangaklefa,“ segir í dóminum um framburð lögreglumannsins.

Þar sem rannsókn lögreglu þótti leiða í ljós að frásögn ákærðu gekk ekki upp var hún yfirheyrð sem sakborningur 5. maí 2020, eða tæpum tveimur og hálfum mánuði eftir að málið kom fyrst upp. Í yfirheyrslu hjá lögreglu vildi hún ekki breyta fyrri framburði sínum og bar enn að brotaþoli hafi komið á heimili hennar þetta kvöld. Hún sagði í fyrstu að hann hafi komið og sett dragbönd um hendur hennar, tók svo fram að minni hennar væri ekki gott en vildi svo ekki svara spurningum lögreglu frekar um hvað gerst hefði umrætt kvöld.

Neitaði hjá lögreglu en játaði fyrir dómi

Fyrir dómi játaði konan hins vegar að hafa framið hegningarlagabrot með framburði sínum.

Með vísan til játningarinnar var konan sakfelld fyrir rangar sakargiftir. Að mati dómsins hafi konan með skýrslum sínum hjá lögreglu, sem hún hafi ekki dregið til baka að eigin frumkvæði, komið því til leiðar að grunur um alvarlegt refsivert athæfi beindist að manninum, hann var handtekinn, vistaður í fangaklefa yfir nótt, látinn sæta nálgunarbanni og gert að veita lögreglu aðgang að persónulegum upplýsingum sínum.

Gert að greiða 350 þúsund í bætur

Konunni er einnig gert að greiða sínum fyrrverandi 350 þúsund krónur í miskabætur, en í dómi er vísað til vottorð sálfræðings „þar sem fram kemur að hann hafi orðið fyrir „gríðarlegu áfalli og meðal annars ekki treyst sér til að búa áfram einn í íbúð sinni og því flutt til föður síns um tíma. Þá hafi hann átt hann erfitt með svefn.“