Hafnastjóri Hafnasamlags Norðurlands, Pétur Ólafsson sem býr á Akureyri, segir óviðunandi að allir hafnsögumenn hans þurfi að sækja námskeið í Reykjavík í stað þess að nýta fjarfundabúnað eða færa námskeiðið frá höfuðborgarsvæðinu. Mörg dæmi séu um mikinn kostnaðarauka sem á Hafnasamlagið hafi fallið vegna námskeiðshalds fyrir starfsfólk þess í Reykjavík.

Nú hefur bæst við nýtt en þarft námskeið fyrir hafnsögumenn, að sögn Péturs. Allir greiði sömu námskeiðsgjöld, óháð því hvar fólk býr, sem þýði með öðrum orðum að til viðbótar við námskeiðsgjöldin þurfi Hafnasamlag Norðurlands að greiða flug/akstur, gistingu og fæði.

Þetta kemur fram í grein sem Pétur ritar í héraðsblaðið Vikudag. Kostnaður vegna námskeiðisins verður 185.000 krónur, gjaldið sjálft plús 280.000 í ferðir, fæði og uppihald fyrir hvern starfsmann, samtals 465.000 krónur á hvern starfsmann.

„Hér er um stjórnvaldsákvörðun að ræða, opinber stofnun stendur fyrir námskeiðum sem hún skyldar hafnsögumenn Hafnasamlags Norðurlands og annarra hafna út um allt land til þess að sitja í Reykjavík, með tilheyrandi viðbótarkostnaði sem af því hlýst að senda fólk landshluta á milli. Og þetta á síður en svo bara við um hafnir landsins, slíkur viðbótarkostnaður á fyrirtæki á landsbyggðinni vegna námskeiða og funda í Reykjavík er vel þekktur úr öllum geirum atvinnulífsins,“ segir Pétur og harmar aðstöðumuninn milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðarinnar sem ekki verði lengur við unað.

„Ef vilji stæði til þess væri fjölmargt hægt að leysa með því t.d. að stórauka notkun fjarfundabúnaðar,“ skrifar Pétur í Vikudag.