Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur undanfarna daga þurft að hafa afskipti af smituðum einstaklingum og fólki sem átti að vera í sóttkví.

Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra, staðfestir í samtali við Fréttablaðið að málin séu til rannsóknar en gat lítið tjáð sig um þau að öðru leyti.

Fram kemur í stöðuskýrslu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra að embættinu hafi borist tilkynningar um hugsanleg brot á sóttkví, einangrun og samkomubanni.

Páley segir að lögreglan hafi fram að þessu verið dugleg að fylgja eftir ábendingum um möguleg brot á sóttvarnarlögum en að engin þeirra hafi endað með sekt eða bókuðu broti.

„Það er kannski eðlilegt að eftir því sem smitunum fjölgi þá fylgi þetta með.“

Hampaði löghlýðni Akureyringa

Ætla má að þessar fregnir komi Ásthildi Sturludóttur, bæjarstjóra Akureyrar, í opna skjöldu en eins og frægt er orðið sagði hún löghlýðni bæjarbúa hafa spilað stóran þátt í því að færri smit fyndust norðan heiða.

„Það er ástæða fyrir því að hér er lítið um smit. Fólk fer mjög varlega. Akureyringar fylgja reglum. Og það er ástæða fyrir því að faraldurinn hefur ekki leikið okkur verr en hann hefur gert hingað til,“ sagði Ásthildur í samtali við RÚV í októberbyrjun.

Óhætt er að segja að orð bæjarstjórans hafi farið illa í marga höfuðborgarbúanna og sagðist hún fljótlega harma það að hafa stuðað fólk með ummælum sínum.

Tilfellum fer fjölgandi á svæðinu

Kórónaveirutilfellum hefur fjölgað nokkuð á Akureyri og Norðurlandi eystra að undanförnu og hefur lögreglan í umdæminu brýnt fyrir íbúum að gæta að eigin sóttvörnum og takmarka samneyti við fólk eins og kostur er.

Samkvæmt nýjustu tölum eru 38 einstaklingar nú með virkt smit á Norðurlandi eystra og hefur fjöldinn rúmlega tvöfaldast á einni viku.

Að sögn lögreglunnar er óvíst hvort tekist hafi að ná utan um þá hópa sem þeim tengjast og þannig hefta frekari útbreiðslu veirunnar.

Eru nú 25 einstaklingar með virkt smit á Akureyri, ellefu í Eyjafjarðarsveit, einn í Hörgársveit og einn í Þingeyjarsveit.

Samhliða því hefur sóttvarnarhús nú verið opnað aftur á Akureyri fyrir einstaklinga sem geta ekki verið í einangrun á eigin heimili.