Ríflega fimmtungur landsmanna telur Akureyri vera borg fremur en bæ. Tæp áttatíu prósent eru á öndverðri skoðun. Þetta kemur fram í könnun Maskínu sem Háskólinn á Akureyri, HA, lét framkvæma.

Þóroddur Bjarnason, prófessor í félagsfræði við HA og stjórnandi rannsóknarinnar, segir mjög áhugavert hve landsmenn séu samdóma í skoðun sinni, burtséð frá búsetu.

„Nærri fjórðungur allra svarenda telur Akureyri nú þegar vera borg en að það skuli enginn munur vera á svörum höfuðborgarbúa og Akureyringar við þessari spurningu kemur á óvart,“ segir Þóroddur.

Nýverið var kynnt skýrsla starfshóps þar sem lagt er til að Akureyri fái aukið stjórnsýsluhlutverk í framtíðinni sem svæðisborg.

Umræðan um Akureyrarborg snýst að hluta til um hugtakanotkun.

Engin skilgreining er til á borg á Íslandi og ekki ljóst hvaða merkingu fólk leggur almennt í hugtakið, að sögn Þórodds.

Könnunin náði til um níu þúsund manns á landinu öllu.