Vinabæjarsamband Akureyrar og Múrmansk í Rússlandi hefur staðið óhaggað þrátt fyrir stríðsreksturinn í Úkraínu. Ekkert annað íslenskt sveitarfélag á vinabæjarsamkomulag við rússnesk. Tromsö hefur slitið vinabæjarsamstarfi sínu við Múrmansk sem er þekkt flotastöð.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar, segir að skrifstofa hennar sé meðvituð um stöðuna og ákvörðun Tromsö. „Samstarf Akureyrarbæjar við borgina Múrmansk hefur verið lítið sem ekkert síðastliðin ár. Eftir að við fengum þessa tilkynningu, að yfirvöld í Tromsö hefðu farið þessa leið, eru allar líkur á að við tökum þetta mál fyrir á næsta bæjarráðsfundi,“ segir hún.

Árið 1994 undirrituðu fulltrúar Akureyrarbæjar og Múrmansk vinabæjarsamkomulag í von um að koma á fót samskiptum á sviði menningar, íþrótta, lista og viðskipta. Þáverandi bæjarstjóri Akureyrar, Jakob Björnsson, sagðist vonast til að þau tengsl myndu stuðla að því að viðskiptasamband myndaðist og væri það vilji beggja aðila að það væri meira en bara orðin tóm. Tveimur árum áður hafði sendinefnd frá Murmansk komið til Akureyrar í boði bæjarins, fyrirtækja og Háskólans á Akureyri.

Á þeim tíma voru Akureyringar að velta fyrir sér möguleikum á flotkví í sambandi við slipp. Margir rússneskir togarar stunduðu þá einnig veiðar við strendur Íslands og mættu reglulega í viðgerðir hjá slippnum á Akureyri. Þar sem tími Sovétríkjanna var nýliðinn undir lok kviknaði sú hugmynd að nýta ný tækifæri og skoða samstarf við Múrmansk í því samhengi.

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri Akureyrar.

Akureyrarbær viðheldur vinabæjasamstarfi við tíu erlend bæjarfélög. Mikið samstarf ríkir á milli norrænu vinabæjanna og Akureyrar og færir til að mynda danska borgin Randers Akureyringum jólatré á hverju ári. En lítið bendir til þess að vináttusamstarf Akureyrar og Múrmansk hafi blómstrað á svipaðan hátt. Fyrir utan einn múrmanskan blakþjálfara sem var ráðinn til KA á sínum tíma.

Dagbjört Pálsdóttir, fyrrverandi bæjarfulltrúi á Akureyri, man ekki til þess að þetta vinabæjarsamstarf við Múrmansk hafi nokkurn tímann verið rætt. „Slíkar umræður gætu hafa átt sér stað en á meðan ég sat sem varabæjarfulltrúi og svo bæjarfulltrúi frá árunum 2014 til 2019 þá man ég ekki til þess að upp hafi komið umræða um, eða við fengið eða skipulagt heimsóknir til Rússlands,“ segir Dagbjört.

Á þriðjudaginn tók norska borgin Tromsö þá ákvörðun að slíta vinabæjarsamstarfi sínu við þrjár rússneskar borgir, þar á meðal Múrmansk. Borgarstjórinn Gunnar Wilhelmsen sagði ákvörðunina vera tekna í ljósi þeirra „grafalvarlegu aðstæðna“ sem komnar eru upp í tengslum við stríð Rússa í Úkraínu. Hann sagði að þetta væri ekki gert til að særa íbúa einstakra borga, heldur frekar til að taka skýra afstöðu gegn Pútín og senda þau skilaboð að þessu stríði verði að linna.