„Aðstæður eru mjög góðar, við höfum framleitt snjó síðustu tvær vikur til að tryggja svæðið fyrir páskana. Svo fengum við snjókomu í nótt sem bætti vel í það sem við höfðum náð að framleiða,“ segir Brynjar Helgi Ásgeirsson, forstöðumaður í Hlíðarfjalli.

Ef lægðir halda sér til hlés er búist við góðum skíðapáskum, jafnvel meira en 2.500 gestum á dag í Hlíðarfjall að sögn Brynjars.

Nýja stólalyftan sem opnuð var á dögunum breytir svæðinu heilmikið að sögn Brynjars. Með henni opnast Dalurinn en margir hafa veigrað sér við þeirri leið, því þeim þykir T-lyftan efst óþægileg.

„Nýja lyftan léttir líka á neðra svæðinu og tengir allt fjallið betur saman. Dalurinn er sennilega ein af skemmtilegri skíðaleiðum á Íslandi. Vanir skíðamenn líkja henni við leiðir í Ölpunum,“ segir Brynjar, klár í páskana.