Ríkisstjórnin tilkynnti fyrr í kvöld hertar samkomutakmarkanir. Í þeim kemur fram að það megi aðeins tvö hundruð manns koma saman í hólfi hverju sinni.

Þetta er annað árið í röð sem hátíðinni er aflýst vegna samkomutakmarkanna.

Í yfirlýsingu sem send var á fjölmiðla í kvöld kemur fram að fáeinir smærri viðburðir sem voru á dagskrá líkt og fjallahlaupið Súlur Vertical fái að fara fram með fjöldatakmörkunum og stífum sóttvarnarreglum.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, segist vera mjög uggandi yfir því hvernig faraldurinn hefur þróast síðustu vikuna og að ekki sé hægt að stefna saman þúsundum manna eins og staðan sé nú.

„Við viljum allt til þess vinna að halda útbreiðslu Covid-19 í skefjum og þjóðin verður að sýna samstöðu í þessari baráttu. Við höfum gert það áður og við getum það aftur,“ segir Ásthildur .