Akureyrarbær áætlar að rekstrarafkoma bæjarins verði neikvæð um ríflega einn milljarð króna á næsta ári. Aldrei hefur verið gert ráð fyrir viðlíka rekstrarhalla hjá sveitarfélaginu og er fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2021 sögð vera fordæmalaus.

Fjárhagsáætlun fyrir næsta ár var lögð fram í bæjarráði í gær en bærinn gerir ráð fyrir hátt í tveggja milljarða króna halla á þessu ári.

Markast af áhrifum kórónaveirufaraldursins

Hluta rekstrarhallans árið 2021 má rekja til halla á málaflokki fatlaðra sem er sagður nema um 500 milljónum króna. Bindur bæjarstjórn vonir við að viðræður milli ríkis og sveitarfélaga um fjármögnun málaflokksins skili árangri strax á næsta ári.

Fram kemur í tilkynningu frá bæjarstjórn að rekstur sveitarfélagsins markist af þeim gríðarlegu efnahagsþrengingum sem blasi við ríki og sveitarfélögum af völdum kórónaveirufaraldursins.

Er rekstrarstaða bæjarins sögð vera mjög erfið og nauðsynlegt að horfa til umbóta og hagræðingar í rekstri til lengri tíma.

„Í ljósi aðstæðna telur bæjarstjórn þó rétt í fyrstu að grípa til tiltölulega mildra aðgerða og verja störf eins og kostur er,“ segir í tilkynningunni.

Mynduðu samstjórn í ljósi erfiðra aðstæðna

Í september var greint frá því að allir stjórnmálaflokkar í bæjarstjórn Akureyrar væru búnir að mynda meirihluta til að mynda breiða samstöðu um stjórn sveitarfélagsins vegna rekstrarerfiðleika. Þá kom fram að 1,3 milljarða króna tap hafi verið á rekstri sveitarfélagsins á fyrstu sex mánuðum ársins.

Gert er ráð fyrir því launakostnaður bæjarsjóðs muni hækka um rúmlega 700 milljónir á næsta ári vegna kjarasamningsbundinna hækkana. Áætlað er að útsvarstekjur muni aðeins hækki aðeins um 300 milljónir króna á móti og hyggjast bæjaryfirvöld fara í 2,5% hagræðingu í launakostnaði til að brúa bilið.

Þá er lagt upp með að farið verði í gjaldskrárhækkanir eftir áramót, að jafnaði um 2,5%.

Stefna bæjaryfirvöld einnig að því að draga úr kostnaði í kerfinu „með fjölbreyttum leiðum“ á sama tíma og reynt verði að hlífa velferðarþjónustu og skólarekstri.

Að sögn bæjarstjórnar hyggst hún nýta hagstæða skuldastöðu sveitarfélagsins og verður ekki dregið úr framkvæmdum sem fjármagnaðar eru með lántöku.

Fram kemur í fjárhagsáætluninni að tilfærsla á rekstri Öldrunarheimila Akureyrarbæjar til ríkisins sú aðgerð sem skilar mesti hagræðingu í fjárhagsáætlun næsta árs.