Þor­valdur Lúð­vík Sigur­jóns­son, fram­kvæmda­stjóri Circ­le Air, segir nauð­syn­legt að meira fjár­magn sé varið til Akur­eyrar­flug­vallar svo hann geti starfað sem vara­flug­völlur og ekki síður sem önnur gátt inn í landið. Þörf er á tölu­verðri upp­byggingu til að flug­völlurinn geti starfað sem skyldi.

„Það vantar flug­hlað á Akur­eyrar­flug­velli, það er búið að henda ein­hverjum malar­dyngjum þarna til þess að gera þetta klárt en það hefur bara beðið svo­leiðis í mörg ár sem þýðir ef að Kefla­víkur­flug­völlur lokar þá er ekkert pláss nein­staðar á landinu fyrir þann fjölda flug­véla sem gætu þurft á plássi að halda,“ segir Þor­valdur í sam­tali við Frétta­blaðið og vísar til þess að það hafi síðast gerst í Eyja­fjalla­jökuls­gosinu árið 2010.

„Það sem hefur síðan gerst síðan frá 2010 er að um­ferð um Kefla­víkur­flug­völl hefur marg­faldast,“ segir Þor­valdur en hann segir á­hættuna hafa rokið upp sam­hliða þeirri aukningu. „Ef eitt­hvað gerist aftur með Kefla­vík, hvert eiga vélarnar að fara? Akur­eyra­flug­völlur er enda­laust sprunginn. Akur­eyri og Egils­staðir geta ekki tekið á móti þessum fjölda eins og staðan er í dag.“

Úr tillögu til þingsályktunar um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2020-2024.
Mynd/Skjáskot

Ekkert fjármagn til uppbyggingar

Þorvaldur vakti athygli á málinu á Facebook síðu sinni fyrr í vikunni eftir að beina þurfti þremur flugvélum Icelandair til Akureyrar eftir að draga þurfti sjúkraflugvél af flugbraut Keflavíkurflugvallar á mánudaginn. Hann vísar til færslu sem hann birti á síðasta ári þar sem hann kallar eftir því að aðbúnaður á Akureyrarflugvelli væri bættur.

„Það sem hefur gerst síðan er að Akureyrarflugvöllur er tekinn út úr Samgönguáætlun næstu 5 ára, þrátt fyrir mikla aukningu á millilandaflugi um Akureyrarflugvöll, og ítrekað sannar hann sig sem varaflugvöllur KEF, síðast í morgun, þegar KEF lokaði,“ skrifar Þorvaldur í færslunni en samkvæmt samgönguáætlun fyrir árin 2020 til 2024 hlýtur flugvöllurinn engar fjárveitingar fyrir utan 78 milljónir sem fara í viðhald og reglubundna endurnýjun búnaðar.

Að sögn vitna réðu dráttarbílar á Akureyrarflugvelli ekki við að draga þoturnar sem lentu þar á mánudaginn vegna hálku.
Mynd/Aðsend

Bæði þjóð­hags­legt hags­munar­mál og mikilvægt flugöryggis­mál

Þor­valdur telur einnig að byggja þurfi flug­vélin upp svo hann geti verið önnur gátt inn í landið. „Það fljúga náttúru­lega 95 prósent í gegnum Kefla­víkur­flug­völl, og taktu eftir að ég segi „náttúru­lega“, af­því það þýðir líka að náttúru­lega sjá níu­tíu prósent af ferða­mönnum ekki út fyrir 150 kíló­metra radíus frá Kefla­víkur­flug­velli,“ segir Þor­valdur og bætir við að restin af landinu sjái ekki þennan fjölda ferða­manna sem kemur til landsins og því um stór van­nýtt tæki­færi í ferða­þjónustu að ræða.

„Þess vegna höfum við sagt að það sé nauð­syn­legt að hafa aðrar gáttir inn í landið, aðrar flug­hafnir inn í landið,“ segir Þor­valdur en hann telur mikil­vægt að ferða­menn fái að sjá meira af landinu en bara höfuð­borgar­svæðið.

„Þannig þetta er bæði þjóð­hags­legt hags­muna­mál og mikil­vægt flug­öryggis­mál, sem meðal annars Icelandair, Öryggis­nefnd FíA og al­þjóða­sam­tök At­vinnu­flug­manna hafa bent í­trekað á frá 2011.Upp­bygging vara­flug­valla Kefla­víkur ætti að vera for­senda fremur en fylgi­fiskur aukinnar upp­byggingar Kefla­víkur­flug­vallar, en ráða­menn annað hvort skilja þetta ekki eða sýna þessum flug­öryggis­málum full­komið tóm­læti,“ segir Þor­valdur að lokum.