Að­gerða­sinnar frá sam­tökunum Just Stop Oil skvettu súpu yfir verk hollenska list­málarans Vincent van Gogh í National Gallery í London í morgun. Lista­verkið sjálft, sem heitir Sun­flower, er varið með gleri og skemmdist ekki. Guardian greinir frá.

„Hvort er meira virði, listin eða lífið?,“ sagði Phoebe Plum­mer, 21 árs kona frá London, en hún er önnur þeirra sem skvetti súpunni yfir verkið.

Með í för var hin tví­tuga Anna Holland frá New­cast­le. „Er listin meira virði en matur? Meira virði en rétt­læti? Hvort hefurðu meiri á­hyggjur af varð­veislu lista­verka eða varð­veislu plánetunnar og íbúa hennar,“ spurði Phoebe.

Eins og nafnið gefur til kynna mót­mæli sam­tökin olíu­iðnaðinum í heild sinni. Bentu þær Phoebe og Anna á að fleiri milljónir manna hefðu ekki einu sinni efni á að kaupa elds­neyti og heilu fjöl­skyldurnar gætu ekki einu sinni hitað sér súpu.

Í frétt Guar­dian kemur fram að sam­tökin hafi staðið fyrir mót­mælum víða í mið­borg Lundúna undan­farnar vikur.

Guar­dian ræddi við gesti National Gallery um gjörning þeirra Phoebe og Önnu. Einn maður sem Guar­dian ræddi við og vildi ekki láta nafns síns getið sagðist sýna mál­staðnum skilning. Hann gæti aftur á móti ekki sætt sig við að að­gerðirnar beindust að menningar­verð­mætum.

„Hugsan­lega vilja þær að fólk kynni sér mál­staðinn en ég held að þetta skili sér að­eins í reiði og pirringi hjá fólki,“ sagði hann.

Tals­maður Just Stop Oil, Alex De Koning, segir að sam­tökin séu ekki að reyna að eignast vini. „Við erum að reyna að kalla fram breytingar og því miður er þetta eina leiðin til þess.“