Aðgerðasinnar frá samtökunum Just Stop Oil skvettu súpu yfir verk hollenska listmálarans Vincent van Gogh í National Gallery í London í morgun. Listaverkið sjálft, sem heitir Sunflower, er varið með gleri og skemmdist ekki. Guardian greinir frá.
„Hvort er meira virði, listin eða lífið?,“ sagði Phoebe Plummer, 21 árs kona frá London, en hún er önnur þeirra sem skvetti súpunni yfir verkið.
Með í för var hin tvítuga Anna Holland frá Newcastle. „Er listin meira virði en matur? Meira virði en réttlæti? Hvort hefurðu meiri áhyggjur af varðveislu listaverka eða varðveislu plánetunnar og íbúa hennar,“ spurði Phoebe.
Eins og nafnið gefur til kynna mótmæli samtökin olíuiðnaðinum í heild sinni. Bentu þær Phoebe og Anna á að fleiri milljónir manna hefðu ekki einu sinni efni á að kaupa eldsneyti og heilu fjölskyldurnar gætu ekki einu sinni hitað sér súpu.
Í frétt Guardian kemur fram að samtökin hafi staðið fyrir mótmælum víða í miðborg Lundúna undanfarnar vikur.
Guardian ræddi við gesti National Gallery um gjörning þeirra Phoebe og Önnu. Einn maður sem Guardian ræddi við og vildi ekki láta nafns síns getið sagðist sýna málstaðnum skilning. Hann gæti aftur á móti ekki sætt sig við að aðgerðirnar beindust að menningarverðmætum.
„Hugsanlega vilja þær að fólk kynni sér málstaðinn en ég held að þetta skili sér aðeins í reiði og pirringi hjá fólki,“ sagði hann.
Talsmaður Just Stop Oil, Alex De Koning, segir að samtökin séu ekki að reyna að eignast vini. „Við erum að reyna að kalla fram breytingar og því miður er þetta eina leiðin til þess.“
Activists with @JustStop_Oil have thrown tomato soup on Van Gogh’s Sunflowers at the national Gallery and glued themselves to the wall. pic.twitter.com/M8YP1LPTOU
— Damien Gayle (@damiengayle) October 14, 2022