Undanþágunefnd vegna verkfallsaðgerða Eflingar hefur ákveðið að allur akstur strætóbílstjóra hjá almenningsvögnum Kynnisferða sem aka með fólk með fatlanir verði sjálfkrafa undanþeginn verkfallsaðgerðum. Bílstjórum sem starfa við slíkan akstur er því heimilt að sinna störfum sínum með óbreyttum hætti. Af þeim 90 bílstjórum sem sinna akstri akstursþjónustu fatlaðs fólk á höfuðborgarsvæðinu er um fjórðungur félagsmenn í Eflingu.

Strætó bs. segir að verkfallsaðgerðirnar muni koma til með að hafa víðtæk áhrif á akstur strætó bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Fyrstu aðgerðir vagnstjóranna eiga að hefjast þann 18. Mars, sem er á mánudaginn. Þá munu vagnstjórar dreifa kynningarefni og ekki fylgjast með miðum eða taka greiðslu. Næstu aðgerðir hefjast síðan 23. Mars og standa í sex daga. Þá ætla vagnstjórar að stöðva í fimm mínútur, við næstu stoppistöð, klukkan fjögur hvern dag. Þá daga má því búast við einhverri seinkun. Sömu daga munu þeir einnig ekki þrífa vagnana að utan.

Enginn strætó til að komast í og úr vinnu

Næstu aðgerðir eru fyrirhugaðar, á virkum dögum, frá 1. apríl til 1. maí. Þá ætla vagnstjórar að leggja niður vinnu frá klukkan 7 til 9 og aftur frá klukkan 16 til 18. Því má ætla að það mun verða fólki erfitt að komast í og úr vinnu þessa daga.

Fram kemur í tilkynningu frá Strætó að flestir vagnstjórar Kynnisferða séu félagsmenn í Eflingu og því muni boðaðar verkfallsaðgerðir hafa töluverð áhrif eftirfarandi leiðir á höfuðborgarsvæðinu. Leiðirnar sem verkföllin hafa áhrif á eru:  12, 14, 15, 16, 17, 21, 24, 28, 35 og 36. Einnig eru hluti af vagnstjórum Hagvagna félagsmenn í Eflingu, sem aka eftirfarandi leiðum; 11, 13, 22, 23, 31, 33, 34, 43 og 44. Gera má ráð fyrir að af verkfallsaðgerðir muni hafa einhver áhrif á stakar ferðir innan þessara leiða.

Að lokum kemur fram í tilkynningu að engir starfsmenn Strætó bs. eru félagsmenn í Eflingu og framangreindar verkfallsaðgerðir hafa því ekki áhrif á eftirfarandi leiðir; 1, 2, 3, 4, 5, 6, 7 og 18.

Hefur einnig áhrif á landsbyggðinni

Hópbílar er einn stærsti verktakinn sem sinnir akstri fyrir Strætó á landsbyggðinni, þar eru hluti af starfsmönnum félagsmenn í Eflingu og því munu aðgerðirnar áhrif á stakar ferðir eftirtalinna leiða:

• 51, 52, 72, 73, 75 á Suðurlandi

• 57 á Vestur- og Norðurlandi

• 55 á Suðurnesjum

Verktakar annarra leiða á landsbyggðinni eru ekki félagar í Eflingu og því ná eftirfarandi verkfallsaðgerðir ekki til þeirra.

Strætó hvetur farþega til að fylgjast vel með tilkynningum á heimasíðu Strætó, appinu og samfélagsmiðlum.