Karlmaður á fimmtugsaldri hefur verið ákærður fyrir að nauðga fjórum konum sem hann veitti líkamsmeðhöndlun vegna stoðkerfisvandamála á árunum milli 2007 til 2017.

Rannsókn málsins hófst fyrir rúmum tveimur árum en í október 2018 ræddi Fréttablaðið við Sigrúnu Jóhannsdóttur lögmann og réttargæslumann nokkurra kvenna sem höfðu lagt fram kærur á hendur manninum.

Eftir umfjöllun Fréttablaðsins um málið haustið 2018 fjölgaði konunum og að sögn Sigrúnar leituðu á þriðja tug kvenna til hennar vegna meintra kynferðisbrota mannsins. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins kærðu á annan tug kvenna manninn til lögreglu fyrir kynferðisbrot.

Mál fjögurra kvenna hafa leitt til ákæru og er maðurinn ákærður fyrir nauðgun í tilvikum þeirra allra.

Meðan á rannsókn lögreglu stóð voru dómkvaddir tveir sjúkranuddarar til að meta hvort og þá að hvaða marki háttsemi hans samræmist viðurkenndum aðferðum í nuddfræðum.

Í skýrslum nokkurra kvennanna sem sökuðu manninn um kynferðisbrot kom fram að maðurinn hafi í einhverjum tilvikum meðhöndlað stoðkerfisvanda í gegnum leggöng þeirra, óháð því á hvaða svæðum líkamans þær kenndu sér meins.

Er meðal annars deilt um gildi matsgerðar sjúkranuddaranna í málinu en verjandi ákærða mótmælti matsgerðinni meðal annars á þeim grundvelli að skjólstæðingur hans væri ekki sjúkranuddari og hafi ekki selt þjónustu sína sem sjúkranudd.

Í umfjöllun Fréttablaðsins um málið síðla árs 2018 vísaði verjandinn ásökunum á hendur skjólstæðingi sínum á bug. Hann hafi starfað við sérhæfða líkamsmeðhöndlun í einn og hálfan áratug og fengið yfir fimmtíu þúsund heimsóknir frá ánægðum viðskiptavinum á öllum aldri og af báðum kynjum.

Málið hefur þegar verið þingfest í Héraðsdómi Reykjaness. Þinghöld í málinu eru lokuð.