Við náum tali af Bríeti þar sem stutt stund er á milli stríða við undirbúning tónleikanna. „Þetta er alveg 40 manna teymi sem ég er búin að sanka að mér til að gera þetta fullkomið,“ segir Bríet, en útgáfutónleikar hennar urðu loks að veruleika í október, færri komust að en vildu og var því afráðið að stilla aftur upp í „show-ið“, sem vakti gríðarleg viðbrögð.

„Það eru allir með metnað fyrir því að gera enn betur en í fyrra og þá vill maður laga hér, bæta við dressi hér eða bæta við dansinn hér, svo ósjálfrátt verður þetta jafn mikil vinna og upphaflega,“ segir hún, en þegar þessi orð eru rituð eru enn einhver sæti laus á seinni tónleika kvöldsins.

„Verandi með svona skapandi fólki eins og Aðalheiði Halldórs danshöfundi, þá bara fara allir af stað af ótrúlegum metnaði.“

Bríet segir undirbúning slíks kvölds þéttan. „Við erum að tala um hljómsveitar- og dansæfingar, svo hanna ég líka öll fötin með Sigríði Ágústu, klæðskera og fatahönnuði. Við erum saman í hugmyndaferlinu en svo er hún hendurnar og heilinn sem gerir þetta allt saman.“

Æfa þurfti nýja hljómsveit fyrir kvöldið þar sem þeir Rubin Pollock og Þorleifur Gaukur Davíðsson, sem spiluðu ásamt fleirum á útgáfutónleikunum, eru nú á tónleikaferðalagi með sveit sinni, Kaleo. Eins þurfti að æfa upp danssporin. Æfingar hafa því verið þéttar og eins fundarseta með ljósamönnum og þeim sem sjá um hár og förðun.

Bríet kemur sjálf að flestum hliðum tónleikana en hefur myndað um 40 manna teymi með sér.
Mynd/Berglaug Petra Garðarsdóttir

Ársundirbúningur

„Þetta er erfitt þegar maður vill vera með puttana í öllu,“ segir Bríet í léttum tón, en hugmyndir og hönnun á bak við tónleikana eru í höndum hennar og tónlistarmannsins Kristins Arnars Sigurðssonar, betur þekkts sem Krassa-sig.

„Við Kiddi byrjuðum á hugmyndaferlinu fyrir ári síðan. Hann fór þá að hanna leikmynd og við erum svo búin að vera að stilla upp og raða og breyta. Þetta er náttúrlega sama beinagrindin og var í október en við erum búin að þétta og fullkomna þetta.“

Aðspurð hverju áhorfendur eigi von á í kvöld svarar Bríet: „Þetta er aldrei sama show-ið þótt beinagrindin sé sú sama. Það voru svo margir svekktir að missa af síðast svo það var komin pressa á að gera þetta aftur. Maður smíðaði þennan turn frá grunni og á þetta allt saman svo það var bara um að gera að henda í aðra tónleika. Það er svolítið hellað að vinna að einhverju í hálft ár og svo er þetta bara eitt show – ein algjör sprengja og svo bara takk og bless.“

Mikill tími hefur farið í undirbúning tónleikanna í kvöld en framundan er svo að læsa sig inni í stúdíói til að taka upp nýja plötu.
Mynd/Berglaug Petra Garðarsdóttir

Spilar um landið í sumar

Eftir tónleikana er helst tvennt á döfinni hjá Bríet. „Ég er að reyna að fara að læsa mig inni í stúdíóinu til að taka upp nýtt efni og svo langar mig líka að flakka um landið í sumar og taka þessi litlu gigg þar sem ég fæ bara fáa inn á stað og spila,“ segir Bríet, sem er enn að vinna í dagskránni sem er að myndast en segist alla vega ákveðin í að heimsækja Vest- og Austfirði.

Fyrsta plata Bríetar var kveðja til fyrri og núverandi ástarsambanda og segja má að hún hafi slegið í gegn á einni nóttu. Bríet segir eitthvert efni tilbúið í stúdíóupptöku. „Það er alltaf eitthvað til.“

En hvert verður umfjöllunarefni nýrrar plötu?

„Ég veit aldrei alveg hvað ég er að hugsa,“ segir hún einlæg. „Akkúrat núna er ég glöð – svo kannski förum við aðeins inn í gleðina bara.“