Hvatningarátakið hefur vakið mikla athygli og yljað landsmönnum á jákvæðan hátt. Við erum afar þakklátar öllum þeim sem hafa tekið þátt í hvatningarátakinu og sent bréf til annarra eða tekið myndir við takk veggi,“ segja talskonur verkefnisins, þær Karítas Diðriksdóttir Marín Magnúsdóttir og Sigþrúður Ármann.

„Það er bæði gefandi að senda öðrum hrós og fá hrós og við viljum þakka sveitarfélögum, samstarfsaðilum, styrktaraðilum og öllum sem hafa tekið þátt, kærlega fyrir að gera þetta verkefni að veruleika.“

Karítas segir þær stöllur hæstánægðar með hvernig átakið hefur gengið og bætir við að þótt segja megi að átakinu sé að ljúka formlega, muni það lifa áfram.

Bláir veggir rísa

„Hvatningarátakið sem slíkt er svona um það bil að klárast formlega, en mun lifa áfram með þeim takk veggjunum út sumarið,“ segir Karítas og bendir á að hægt sé að bregða á leik við veggina um verslunarmannahelgina sem verður óvenju viðburðasnauð þetta árið.

„Það eru engin hátíðarhöld í gangi þannig að umhverfið er svolítið breytt en það eru 25 veggir á víð og dreif um landið,“ segir Karitas um veggina sem eru á Akranesi, Akureyri, Borgarnesi, Dalvík, Egilsstöðum, Flateyri, Garðabæ, Grundarfirði, Hafnarfirði, Höfn í Hornafirði, Hólmavík, Hveragerði, Ísafirði, Mosfellsbæ, Ólafsvík, Reykjavík, Seltjarnarnesi, Suðureyri, Suðurnesjabæ, Vestmannaeyjum, Þingeyri og Þorlákshöfn.

„Þeir eru bara út um allt og dreifast mjög víða þannig að það ættu allir að vera með vegg í nágrenninu og upplagt að gera eitthvað saman með því að fara og kíkja á þá.“

Þúsundir bréfa

„Þetta er búið að ganga mjög vel og við erum mjög ánægðar með þetta,“ segir Karitas um átakið almennt. Fólk er búið að vera að birta myndir af sér við veggina og það er búið að senda mörg þúsund bréf frítt, en Pósturinn gaf fría póstsendingu. Það er auðvitað mjög skemmtilegt hvað fólk er búið að vera duglegt að senda og auðvitað þykir okkur vænt um það.

Fólk sendir líka bréf og er ekkert endilega að kvitta. Einhverjir skrifa nafnið sitt en ekkert allir og það er líka það sem er svo fallegt við þetta. Að fólk geri þetta bara af því að þig langar að þakka fyrir og hrósa einhverjum.“