Akio Toyoda tók við stjórnvelinum hjá Toyota fyrir 14 árum síðan og hefur sett sitt mark á merkið. Hann hefur alla tíð lagt áherslu á að bílar eigi að vera skemmtilegir og þess vegna höfum við séð Toyota koma fram með bíla eins og GT86, Supra og GR-línuna á undanförnum áratug. Toyoda mun taka við stöðu stjórnarformanns Toyota í stað Takeshi Uchiyamada, aðalhönnuðar fyrsta Prius-tvinnbílsins. Toyoda hættir sem forstjóri 1. apríl næstkomandi en við tekur Koji Sato sem er valinn vegna sömu ástríðunnar fyrir bílum og fyrirrennari hans. Hann keppir meðal annars í mótorsporti undir nafninu Driver Morizo og tók til dæmis þátt í 24 stunda keppninni á Nurburgring árið 2019.

Sato er núverandi forstjóri Lexus og Gazoo Racing en hans bíður nú það verkefni að leiða sókn Toyota inn á rafbílamarkaðinn. Þar kemur reynsla Sato sér vel en Lexus setti fyrsta rafbíl sinn á markað árið 2019 og er að fara að kynna fyrsta rafbíl sinn byggðan á e-TNGA-undirvagninum, seinna á þessu ári. Næsti rafbíll Toyota verður bíll byggður á bZ Compact Crossover tilraunabílnum og fer hann í sölu seint á þessu ári. Toyota hefur verið seint til að bregðast við þróun raf bílamarkaðsins í Evrópu en áætlar nú að koma með 30 nýja rafbíla á markað áður en áratugurinn er úti.