For­seti full­trúa­deildar Banda­ríkja­þings, Nan­cy Pelosi, til­kynnti á blaða­manna­fundi í dag hverjir koma til með að að flytja málið gegn Donald Trump Banda­ríkja­for­seti innan öldunga­deildarinnar. Þing­mennirnir, svo­kallaðir „impeach­ment mana­gers,“ eru sjö talsins en búist er við að á­kærurnar til em­bættis­missis verði sendar yfir til öldunga­deildarinnar í dag.

Máls­með­ferð innan öldunga­deildarinnar að mörgu leiti líkt réttar­haldi innan dóms­kerfisins en tekur að­eins á því hvort Trump verður sviptur em­bætti. Meðal þeirra sem koma til með að flytja málið fyrir hönd þingsins eru Adam Schiff, þing­maður Demó­krata í Kali­forníu og for­maður leyni­þjónustu­nefndar full­trúa­deildarinnar, og Jerry Nadler, þing­maður Demó­krata í New York og for­maður dóms­mála­nefndar full­trúa­deildarinnar.

Þá munu þing­mennirnir Zoe Lof­gren frá Kali­forníu, Hakeem Jeffries frá New York, Val Demnings frá Flórída, Jason Crow frá Col­or­ado og Sylvia Garcia frá Texas einnig flytja málið. Full­trúa­deildin mun síðan kjósa form­lega um til­nefningu Pelosi síðar í dag.

Segir að það hafi skilað árangri að bíða

Pelosi hefur verið gagn­rýnd af Repúbli­könum og nokkrum Demó­krötum fyrir að bíða með að senda á­kærurnar en tæp­lega mánuður er síðan Trump var á­kærður til em­bættis­missis fyrir mis­beitingu á valdi og að hindra fram­gang þingsins. Að sögn Pelosi var það gert til að tryggja rétt­láta máls­með­ferð.

Trump hefur ávalt neitað sök í málinu og hefur oft líkt framgöngu Demókrata við nornaveiðar en hann bannaði starfsfólki Hvíta hússins að bera vitni fyrir fulltrúadeildinni. Þá hefur hann einnig neitað að leggja til þau skjöl sem fulltrúadeildin hefur óskað eftir en Demókratar vonuðu að með tímanum gæti það breyst.

„Tíminn hefur leitt ýmis­legt í ljós,“ sagði Pelosi á fundinum í dag en hún segir frekari sönnunar­gögn hafi komið fram í málinu, til dæmis tölvu­pósta sem sýndu fram á að fjár­hags­að­stoð til Úkraínu hafi verið sett á ís skömmu eftir sím­tal Trump og for­seta Úkraínu.