Héraðsdómur hefur vísað frá máli héraðssaksóknara gegn Jóni Baldvini Hannibalssyni vegna meintra kynferðisbrota gegn Carmen Jóhannsdóttur. Úrskurðurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Ekki var talið að meint háttsemi Jóns Baldvins félli undir brot sem lýst er í spænska ákvæðinu um kynferðislega misnotkun sem vísað var til í ákærunni. Þá lægi ekki fyrir hvort háttsemin væri refsiverð samkvæmt öðrum ákvæðum spænskra laga.

Jón Baldvin var ákærður fyrir kynferðisbrot, með því að hafa laugardaginn 16. Júní 2018 á heimili sínu á Grenada á Spáni, strokið utanklæða upp og niður eftir rassi Carmen, sem var gestkomandi á heimili Jóns.

Carmen krafði hann um eina milljón í miskabætur og Jón Baldvin krafðist frávísunar og málsvarnarlauna úr ríkissjóði.

Carmen greindi fyrst frá atvikinu viðtali við Stundina. Þar sagði hún frá því hvernig Jón Baldvin áreitti hana kynferðislega á heimili hans og eiginkonu hans í bænum Salobreña að lokum leik Íslands og Argentínu í heimsmeistaramótinu í knattspyrnu.

Car­men kærði Jón Bald­vin til lögreglu í mars í fyrra og hefur málið verið til rannsóknar í rúmlega ár. Móðir Carmenar er sögð hafa orðið vitni að þessu en Jón Baldvin hefur sagt vitnisburð hennar ótrúverðugan.

Vegna þess að brotavettvangur er á Granada á Spáni taldi Jón Baldvin ekki sýnt fram á að heimilt væri að refsa honum fyrir brotið á Íslandi.

Í úrskurðinum segir Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari ekki betur séð en að spænska lagagreinin væri mikið frábrugðin íslensku lagaákvæði um kynferðislega misnotkun. „Er það mat dómsins að ákærði beri að njóta vafans um þetta og ber því að taka kröfu hans til greina og vísa málinu frá dómi.“

Ríkissjóður greiðir rúmlega 917 þúsund krónur í málsvarnarlaun Vilhjálms H. Vilhjálmssonar, lögmanns Jóns Baldvins.

Skilgreining á kynferðisbrot samkvæmt spænskum hegningarlögum. Þetta kemur fram í úrskurðinum.

Fréttin hefur verið uppfærð: 8. janúar 2021.