Héraðssaksóknari hefur lagt fram ákæru á hendur karlmanni á miðjum aldri fyrir tilraun til manndráps. Í ákæru segir að ákærði hafi ráðist að brotaþola, sem hann tengist fjölskylduböndum, með ofbeldi í íbúðarhúsi í Garðabæ, laugardagskvöldið 4. janúar síðastliðinn. Er hann ákærður fyrir að hafa slegið brotaþolann bæði með stól og kertastjaka víðsvegar í líkama, höfuð, bol og útlimi og ráðist loks að honum með eldhúshníf með 10 sentimetra löngu blaði og stungið hann bæði í háls og brjóstkassa.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu reyndust áverkarnir sem brotaþolinn hlaut ekki lífshættulegir, en í ákæru kemur fram að hann hlaut yfirborðsáverka á höfði 2,5 sentimetra langt sár á hálsi, mar og sár á brjóstkassa, rifbrot, mar á kviði, sár á hendi, áverka á fingurtaug, sár á hné og fótlegg og mar á mjöðm.

Handtekinn af sérsveit á vettvangi

Í kjölfar árásarinnar flúði brotaþoli af heimili sínu með öðrum fjölskyldumeðlimum áður en lögregla kom á staðinn. Var sérsveitin kölluð út og var ákærði enn á vettvangi árásarinnar þegar hana bar að garði. Samkvæmt yfirlýsingu um málið frá lögreglu veitti hann ekki mótspyrnu við handtöku. Þá hefur einnig komið fram að ákærði hafi ekki verið undir áhrifum vímuefna þegar árásin var gerð, heldur glími hann við veikindi. Hann hafi verið færður undir læknishendur eftir yfirheyrslu.

Í ákærunni sem gefin var út 15. október síðastliðinn, er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, en í dómaframkvæmd er að jafnaði dæmd fimm til sex ára fangelsisvist fyrir tilraun til manndráps. Þess er krafist til vara að ákærða verði gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun.

Engin bótakrafa gerð

Ólíkt því sem títt er í málum af þessum toga er ekki gerð einkarefsikrafa um miskabætur af hálfu brotaþolans.

Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku og verða þinghöld í málinu lokuð.