Karl­maður á sjö­tugs­aldri hefur verið á­kærður af Héraðs­sak­sóknara fyrir til­raun til mann­dráps vegna skot­á­rásar á Mið­vangi í Hafnar­firði í lok júní.

Í um­fjöllun RÚV um málið segir að málið hafi þegar verið þing­fest í Héraðs­dómi Reykja­ness en þing­hald var lokað. Farið er fram á að maðurinn verði dæmdur til refsingar en til vara að honum verði gert að sæta öryggis­vistun.

Umsátur lögreglunnar stóð yfir í rúmar fjórar klukkustundir.
Mynd/Ernir

Í á­kærunni segir að maðurinn hafi verið með 22 kalí­bera riffil á þriðju hæð blokkarinnar við Mið­vang. Þá á maðurinn að hafa miðað á bíl sem var lagt rúm­lega 30 metrum frá leik­skólanum Víði­velli og hleypt af tveimur skotum.

Fyrra skotið fór í gegnum aftur­hlera bílsins og stöðvaðist í baki far­þega­sætisins, en annar brota­þolanna er sagður hafa staðið þar. Seinna skotið fór í aftur­hurð bílsins og stöðvaðist í hurðar­falsinu, með þeim af­leiðingum að rúðan í hurðinni brotnaði og gler­brotum rigndi yfir seinni brota­þolann, sem sat í skot­stefnu kúlunnar í öku­manns­sætinu.

Brota­þolarnir tveir krefjast þess að maðurinn verði dæmdur til að greiða þeim sam­tals átta milljónir.

Mikill við­búnaður lög­reglu og sér­sveitarinnar var á svæðinu sem var allt af­girt en um­sátur lög­reglunnar stóð yfir í rúmar fjórar klukku­stundir áður en maðurinn gaf sig sjálf­viljugur fram.