Karlmaður á sjö­tugs­aldri hefur verið ákærður fyrir manndráp og brennu, en hann er grunaður um að vera valdur að brunanum að Bræðra­borg­ar­stíg í júní. Mbl.is hefur þetta eftir Kolbrúnu Benediktsdóttur varahéraðssaksóknara.

Fréttablaðið greindi frá því í júlí að bruninn hafi verið rannsakaður sem mann­dráp af á­setningi. Í gæslu­varð­halds­úr­skurði Héraðs­dóms Reykja­víkur var sak­borningurinn sagður liggja undir grun um að hafa brotið gegn 211. grein al­mennra hegningar­laga, sem snúi að mann­drápi af á­setningi.

Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi í 12 vikur en lög heimila ekki lengri frelsissviptingu manns án þess að ákæra hafi verið gefin úr á hendur honum en þar eð ákæra hefur verið gefin út, var unnt að úrskurða hann í áframhaldandi gæsluvarðhald.

Þrír lét­ust í brun­an­um, öll pólsk­ir rík­is­borg­ar­ar, og vakti málið mikla reiði meðal margra sem kröfðust úr­bóta í mál­efn­um er­lends verka­fólks hér á landi.