Ákæra hefur verið gefin út á hendur karlmanni fyrir að áreita ökumann kynferðislega í gegnum glugga á bifreið fyrir utan tónlistarskóla FÍH.

Maðurinn er sagður hafa teygt sig inn um glugga bifreiðarinnar og áreitt konu með því að strjúka utanklæða upphandlegg hennar, öxl og læri. Hann hafi svo farið inn í bílinn og strokið utanklæða hendur hennar, bak, læri og mjaðmir, tekið utan um hana og kysst háls hennar og hendur.

Atvikið á að hafa gerst þann 9. maí í fyrra við Rauðagerði 27 í Reykjavík og var málið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku. Þinghald verður lokað í málinu en ekki kemur fram hvort ökumaðurinn og hinn ákærði þekkist.

Konan fer fram á að hinn ákærði verið dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Fer hún fram á 2,5 milljónir í miskabætur vegna málsins.