Lög­regla í Norður-Karó­línu hefur á­kært 25 ára gamlan mann, Darius Sessoms, fyrir að skjóta fimm ára dreng til bana í síðustu viku. Faðir drengsins segir í sam­tali við CNN að sonur hans hafi verið úti að leika sér þegar hann var skotinn.

Faðirinn, Austin Hinnant, segist hafa hlaupið út þegar hann heyrði skotið og sá þar son sinn í jörðinni. „Ég hrópaði á hjálp gerið það bjargið syni mínum,“ segir hann. Hann hafi þá litið upp frá syni sínum sem lá í jörðinni og séð þar ná­granna þeirra, Darius Sessoms, í garðinum við hliðina með byssu í hendinni.

Hann segir að Darius hafi gangið hratt um garðinn, ör­væntingar­fullur og í hálf­gerðu upp­námi. „Ég horfði á hann á meðan ég tók Cann­on upp úr jörðinni. Ég var fullur heiftar en ég gat ekki skilið son minn eftir,“ segir faðirinn. „Ég vildi bara vera með syni mínum.“

Unnusta hans hringdi þá í neyðar­línuna en ná­granninn Darius keyrði á brott.

Ný til­kynning frá lög­reglu svæðisins rímar þá við frá­sögn föðurins. Þar segir að lög­reglu­menn hafi verið kallaðir út þann 9. ágúst síðast­liðinn vegna skot­á­rásar og að þeir hafi komið að fimm ára gömlum dreng með skot­sár. Drengurinn lést svo af sárum sínum á spítala skömmu síðar.

Lög­regla fann loks ná­grannann síðasta mánu­dag og hand­tók hann. Hann hefur nú verið kærður fyrir morð á drengnum.