Mál manns sem er grunaður um tilraun til manndráps gagnvart móður sinni var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Hann er jafnframt ákærður fyrir kynferðisbrot og brot gegn barnaverndarlögum annars vegar og hins vegar brot gegn valdstjórninni.

Manninum er gefið að sök að hafa þann 5. apríl á þessu ári ráðist á móður sína með ofbeldi í Krummahólum í Breiðholti.

Á að hafa lagt líf móður sinnar í hættu

Ofbeldislýsingarnar sem lýst er í ákæru eru ef til vill ekki fyrir viðkvæma, en þeim er lýst þannig í ákæru að hann hafi slegið hana ítrekað með krepptum hnefum í líkama, andlit og höfuð, sparka í hana og taka hana ítrekað hálstaki þannig að hún missti meðvitund. Þá er hann jafnframt ákærður fyrir að hóta henni ítrekað lífláti.

Í ákærunni segir að maðurinn hafi með þessu ógnað lífi, heilsu og velferð móður sinnar, en fram kemur að hún hafi hlotið áverka á hálsi, andliti, höfði, handleggjum, hendi, fótlegg og brjóstkassa. Og þá hafi hún jafnframt hlotið punktblæðingar í augum.

Móðirin hefur jafnframt lagt fram einkaréttarkröfu. Þar sem hún krefst fimm milljón króna í skaða- og miskabætur. Auk þess krefst hún þess að ákærði greiði sjúkrakostnað sem er tæplega ein milljón króna.

Ákærður fyrir brot á unglingsstúlku

Annað brot sem maðurinn er ákærður fyrir varðar kynferðisbrot gagnvart fimmtán ára stúlku, en honum er gefið að sök að hafa kysst hana á hálsinn og reynt að kyssa hana á munninn. Meint atvik átti sér stað í október árið 2020.

Þá krefst foreldri stúlkunnar þess að maðurinn greiði henni eina og hálfa milljón króna í miskabætur.

Líflátshótanir í lögreglubíl

Síðasti ákæruliðurinn varðar brot gegn valdstjórninni, en maðurinn er ákærður fyrir að hóta lögreglumönnum og fjölskyldum þeirra lífláti.

Umræddar hótanir eiga að hafa átt sér stað í lögreglubíl sem var á leið frá Hagkaupum í Skeifunni í mars á þessu ári.