Karlmaður hefur verið ákærður fyrir að nauðga konu á kvennasalerni skemmtistaðar í miðbæ Reykjavíkur. Málið var þingfest í gær í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Í ákærunni, sem Fréttablaðið hefur undir höndum, kemur fram að maðurinn hafi komið að konunni þar sem hún stóð fyrir framan kvennasalerni skemmtistaðarins, kysst hana, leitt hana inn á salernisbás.

Þar hafi hann lagt hönd hennar á ber kynfæri sín, dregið niður um hana buxurnar og stungið fingri í leggöng hennar, snúið henni við og þvingað eða reynt að þvinga lim sínum inn í leggöng hennar og reynt að láta hana hafa við sig munnmök en þá hafi konan komist undan. Maðurinn á að hafa gripið um hár hennar og reyndi konan ítrekað að stöðva hann bæði með orðum og háttsemi.

Konan hlauta áverka, þar á meðal 0,5 cm sprungu ofan sníps, roða, sár og mar á meyjarhaft og tveggja mm sprungu á spöng að því er fram kemur í ákærunni. Atvikið á að hafa gerst þann 16. febrúar árið 2019.

Þess er krafist að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiði konunni fimm milljónir í miskabætur.