Héraðssaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur karlmanni um þrítugt sem grunaður er um að hafa orðið móður sinni að bana í Hafnarfirði í byrjun apríl. Hann er ákærður fyrir manndráp af ásetningi. Þetta staðfestir Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari í samtali við Fréttablaðið.

Hinn ákærði hafði búið á heimili móður sinnar og stjúpföður í Hafnarfirði um tíma en lögregla var kölluð að heimilinu aðfaranótt 6. apríl síðastliðin. Þegar lögregla kom á vettvang var móðir hins ákærða látin af stungusárum.

Bæði ákærði og eiginmaður konunnar, karlmaður á sextugsaldri, voru handteknir á vettvangi. Eldri maðurinn var látinn laus daginn eftir en yngri maðurinn, sonur hinnar látnu, hefur sætt gæsluvarðhaldi frá handtöku.

Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í næstu eða þarnæstu viku.