Kári Orrason, rúmlega tvítugur Reykvíkingur, hefur verið ákærður fyrir að óhlýðnast fyrirmælum lögreglu í anddyri dómsmálaráðuneytisins í apríl í fyrra þar sem hann, ásamt félögum sínum í samtökunum No-Borders, krafðist fundar með ráðherra um aðbúnað flóttamanna á landinu.

„Við vorum fimm úr hópnum sem vorum handtekin í þessum friðsam-legu og fullkomlega löglegu setumótmælum í ráðuneytinu,“ segir Kári.

Hin handteknu voru sökuð um húsbrot en það mál var látið niður falla.

Lögregla bar fólkið út úr ráðuneytinu en það taldi sig hafa rétt til að mótmæla með friðsamlegum hætti.
Sigtryggur Ari.

Birt ákæra rúmu ári síðar

Tveimur úr hópnum, Kára og félaga hans, Borys Ejryszew, hefur nú rúmu ári síðar verið birt ákæra frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu.

Kári er ákærður fyrir brot gegn lögreglulögum með því að hafa, föstudaginn 5. apríl 2019, óhlýðnast fyrirmælum lögreglu um að yfirgefa anddyri dómsmálaráðuneytisins að Sölvhólsgötu í Reykjavík, er lögregla vísaði fólki á brott úr anddyrinu. Í ákærunni er þess krafist að hann verði dæmdur til refsingar.

Kári á yfir höfði sér fésekt að viðlögðum sakar- og málskostnaði verði hann sakfelldur samkvæmt ákærunni.

Neitar sök og svarar með opnu bréfi

„Við mættum báðir við þingfestingu málsins í júní þar sem við neituðum sök,“ segir Kári, sem svarar fyrir sig í opnu bréfi til Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, á vef Fréttablaðsins.