Mennirnir tveir sem ákærðir voru í hryðjuverkamálinu hafa verið látnir lausir eftir að Landsréttur felldi úr gildi úrskurð héraðsdóms um að tvímenningarnir ættu að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi. DV greindi fyrst frá.
Mennirnir tveir voru ákærðir í síðustu viku. Annar þeirra var ákærður fyrir tilraun til hryðjuverka og hinn fyrir hlutdeild að tilraun til hryðjuverka. Auk þess eru þeir ákærðir fyrir vopnalagabrot og annar þeirra fyrir fíkniefnalagabrot.
Héraðsdómur framlengdi gæsluvarðhaldið yfir mönnunum um fjórar vikur, til 6. janúar en nú hefur Landsréttur fellt úrskurðinn úr gildi og eru mennirnir tveir því lausir.
Samkvæmt DV hefur úrskurður Landsréttar ekki verið birtur, en hann byggir á því að geðmat sem liggur fyrir kveði upp úr um að piltarnir séu hættulausir sjálfum sér og öðrum.