Maður sem ákærður er fyrir að hafa orðið eiginkonu sinni að bana í Sandgerði í mars á þessu ári, hefur verið látinn laus úr gæsluvarðhaldi, með vísan til nýrra gagna sem liggja fyrir í málinu um mögulega dánarorsök hinnar látnu.

Með úrskurði sem kveðinn var upp síðastliðinn föstudag, snéri Landsréttur við úrskurði héraðsdóms frá 6. október, um áframhaldandi gæsluvarðhald mannsins. Varakröfu ákæruvaldsins um farbann var einnig hafnað og er maðurinn því frjáls ferða sinna.

Banameinið mögulega ofneysla en ekki kyrking

Í úrskurði Landsréttar er vísað til matsgerðar dómkvaddra matsmanna frá 30. september síðastliðnum „þar sem meðal annars kemur fram að mögulegt sé að konan „hafi látist af völdum blöndunareitrunar af klórdíasepoxíði, lífefna þess og áfengis.“ Jafnframt segir þar að ekki sé unnt að staðfesta að kraftbeiting gegn hálsi hafi átt sér stað rétt fyrir andlátið, heldur kynni hún að hafa átt sér stað allt að þremur dögum fyrir það.“

Hinn ákærði hefur sætt gæsluvarðhaldi síðan í byrjun apríl eða tæplega hálft ár. „Samkvæmt [95. gr. laga um meðferð sakamála] er unnt að beita gæsluvarðhaldi ef sterkur grunur leikur á að sakborningur hafi framið afbrot sem að lögum geti varðað 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna,“ segir í úrskurðinum. Þegar gerð er krafa um framlengingu gæsluvarðhalds þurfi að meta með sjálfstæðum hætti hvort skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt með vísan til ákvæða stjórnarskrár um að hver maður skuli teljast saklaus uns sekt er sönnuð og ekki sæta gæsluvarðhaldi lengur en nauðsyn krefji.

Kröfu um farbann einnig hafnað

Svo segir í úrskurðinum: „Þegar horft er til nýrra gagna sem liggja fyrir í málinu um mögulegar dánarorsakir hinnar látnu verður ekki talið að skilyrði til gæsluvarðhalds [...] séu lengur fyrir hendi,“ segir í úrskurði Landsréttar. Þá segir að varakrafa ákæruvaldsins um farbann sé órökstudd og komi því ekki til álita.

Konan lést þann 28. mars en í fyrstu þótti ekkert benda til þess að eitt­hvað sak­næmt hefði átt sér stað. Þegar niður­staða réttar­meina­fræðings lá fyrir þremur dögum síðar vaknaði hins vegar grunur um að and­látið hefði borið að með sak­næmum hætti. Var maðurinn þá hand­tekinn og úr­skurðaður í gæslu­varð­hald.