Mosad Badr Abdel Salam Mansour og Kristín Jónsdóttir eru ákærð fyrir að hafa veitt tollayfirvöldum rangar og villandi upplýsingar í tengslum við innflutning á blómum.

Fyrirtækið Samasem ehf (Samasem blómaheildsala) flutti inn blóm frá Hollandi og veitti tollayfirvöldum upplýsingar um tegundir og magn blóma sem voru ekki í samræmi við raunverulegt innihald vörusendinganna að því er segir í ákærunni.

Háttsemi Mosad og Kristínar laut samkvæmt ákærunni fyrst og fremst að smygli á afskornum rósum og blönduðum blómavöndum og eru þau sögð hafa dregið rúmar 5,7 milljónir undan álagningu aðflutningsgjalda vegna fjögurra sendinga. Mosad er skráður eigandi, stjórnarmaður og framkvæmdastjóri í einkahlutafélaginu Samasem og Kristín er varastjórnarmaður með prókúru og starfsmaður í sama félagi.

Málið var þingfest síðastliðinn mánudag í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Eftir skoðun tollvarða á um fjögur hundruð kössum, þar sem fram kom að rangar upplýsingar væru í aðflutningsskýrslu og reikning, var Samasem ehf. gefinn kostur á að senda endurgerða og leiðrétta tollskýrslu fyrir sendinguna miðað við raunverulegt innihald hennar og gerði ákærði Mosad það fyrir hönd félagsins.

Með því að skrá rangar upplýsingar eru þau Mosad og Kristín sögð í ákærunni hafa komið sér undan því að greiða um rúmar 5,7 milljónir samanlagt í aðflutningsgjöldum.