Konan sem heitir Amy Cooper brást illa við þegar þegar svartur maður bað hana um að hafa hundinn sinn í ól á svæði þar sem lausa­ganga hunda er bönnuð í Central Park-garði í New York í Banda­ríkjunum.

Á myndbandi sem maðurinn, Christian Cooper, náði af samskiptum sínum við Amy hótar hún að hringja í lögregluna og segja að það sé maður af afrískum upp­runa að ógna lífi sínu. Það gerði hún svo stuttu síðar.

Christian sem er á­huga­maður um fugla­skoðun hafði á­hyggjur af því að hundurinn stefndi dýra­lífi á svæðinu í hættu og hafði beðið hana um að hafa hundinn ekki lausan.

Amy var í kjölfarið sagt upp störfum og baðst opin­ber­lega af­sökunar á því að hafa brugðist of harka­lega við. Þá hefur hún skilað hundinum sínum í dýraathvarf þar sem fjöl­margir net­verjar sökuðu hana um dýraníð vegna taks hennar á hundinum.

Ákærð fyrir falska tilkynningu

Ákæruvaldið í Manhattan hefur nú ákveðið að ákæra Amy Cooper fyrir að hringja í lögregluna af ósekju fyrir atvikið sem átti sér stað þann 25. maí síðastliðinn.

BBC hefur eftir Cyrus Vance, saksóknara á Manhattan, að stefna ákæruvaldsins sé að taka hart á brotum sem þessum. Eins hvetji hann alla sem verða fórnarlamb falskra tilkynninga til lögreglunnar að leita réttar síns.

Amy Cooper á að mæta fyrir dómara þann 14. október næstkomandi.

Málið hefur vakið mikla athygli og þykir sýna svart á hvítu þá for­dóma sem fólk af afrískum upp­runa þarf að þola dags­dag­lega í Banda­ríkjunum. Atvikið átti sér stað sama dag og George Floyd, sem var svartur, var myrtur í Minneapolis af hvítum lögreglumanni að nafni Derek Chauvin.