Brett Hankison, fyrrverandi lögregluþjónn, hefur verið ákærður vegna lögregluaðgerðarinnar sem Breonna Taylor lést í þegar lögregla skaut hana til bana á heimili hennar í mars.

Ákærukviðdómur ákvað að ákæra hann einungis fyrir tilefnislaust hættuspil en ekki fyrir hafa orðið hinum 26 ára gamla heilbrigðisstarfsmanni að bana.

Hankison var rekinn úr starfi sínu hjá lögreglunni í Louisville í júní eftir að rannsókn leiddi í ljós að hann hafi skotið tíu skotum inn um glugga á heimili Taylor og kærasta hennar án þess að sjá inn um þá vegna gluggatjalda.

Málið hefur valdið mikilli reiði í Bandaríkjunum og kynt undir ásökunum um lögregluofbeldi.

Útgöngubann í borginni

Kallaði stór hópur eftir því að þeir þrír lögreglumenn sem tóku þátt í umræddu útkalli yrðu ákærðir. Enginn þeirra hefur verið ákærður vegna dauða Taylor. Áður höfðu löggæsluyfirvöld fallist á að greiða fjölskyldu hennar 12 milljónir Bandaríkjadala í bætur, jafngildi um 1,6 milljarða íslenskra króna.

Lögregluþjónarnir Jonathan Mattingly og Myles Cosgrov, sem hleyptu einnig af byssum sínum þessa afdrifaríku nótt, voru ekki ákærðir fyrir hættuspil.

Útgöngubann hefur verið sett á í Louisville en borgaryfirvöld óttast að óeirðir muni brjótast út í borginni í kjölfar fregnanna.

Efnt hefur verið til mótmæla þar vegna dauða Taylor á hverjum degi í yfir 100 daga.

Skutu inn í íbúðina

Taylor var sofandi ásamt kærasta sínum Kenneth Walker á heimili þeirra í Louisville þann 13. mars þegar þau vöknuðu við harkalegt bank á útidyrahurðina. Eftir stutt samskipti við þá sem við dyrnar stóðu skaut Walker skoti úr byssu sinni. Svaraði lögreglan sem hafði þá bankað á dyrnar því með þó nokkrum skotum inn í íbúðina og lentu einhver þeirra í Breonnu.

Ástæða þess að lögreglan bankaði upp á heimili parsins er sú að hún hafði haft til rannsóknar tvo menn grunaða um fíkniefnasölu. Dómari hafði gefið út leitarheimild í íbúð Breonnu þar sem grunur lék á að annar mannanna hefði notað íbúðina til að taka á móti sendingum.

Hafði dómari þá skrifað upp á svokallaða „no-knock warrant“ eða leitarheimild sem gefur lögreglunni leyfi til að fara inn í húsnæði án viðvörunar og án þess að kynna sig sem lögreglu.

Engin fíkniefni fundust í íbúðinni og eftir að mótmælin vegna andláts Breonnu hófust í lok maí hefur þessi tegund leitarheimildar verið bönnuð.

Fréttin hefur verið uppfærð til að skýra að Hankison er ekki ákærður fyrir að hafa orðið Taylor að bana heldur fyrir hættuspil.