Búið er að gefa út ákæru á hendur karlmanni á sjötugsaldri sem skaut fjórum skotum við Miðvang í Hafnarfirði í lok júní síðastliðnum.

Maðurinn skaut á tvær bifreiðar en í annarri þeirra var maður ásamt sex ára syni hans og þótti mikið mildi að ekki fór verr.

Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá embætti Héraðssaksóknara, staðfestir þetta í samtali við Fréttablaðið.

Ákæra var gefin út í málinu á fimmtudaginn var en þá voru tólf vikur liðnar frá því að maðurinn var fyrst handtekinn.

Maðurinn, sem var íbúi í Miðvangi, var úrskurðaður á viðeigandi stofnun og segir Karl Ingi að sú vistun hafi verið framlengd um fjórar vikur um leið og ákæra var gefin út í málinu.

Ákæran hefur ekki verið birt opinberlega en reikna má með að það verði gert á næstu dögum og að málið verði þingfest í Héraðsdómi Reykjaness.