Þrjátíu katalónskir embættis- og stjórnmálamenn, eigendur fjölmiðla og athafnamenn voru ákærðir í gær fyrir meðal annars misnotkun á almannafé og óhlýðni við yfirvöld. Ákærurnar fylgja í kjölfar langrar rannsóknar á undirbúningi sjálfstæðisatkvæðagreiðslunnar sem fór fram í héraðinu þann 1. október árið 2017.

Quim Torra, forseti héraðsstjórnar Katalóníu, sagði í yfirlýsingu í gær að um væri að ræða enn eina aðförina að borgararéttindum Katalóna. Þá sagði Torra að ríkisstjórnin væri staðráðin í því að vinna áfram að stofnun sjálfstæðs lýðveldis þrátt fyrir ákærurnar.

Carlos Carrizosa, talsmaður Borgaraflokksins í Katalóníu og sambandssinni, sagði aftur á móti að ummæli Torra væru til skammar. Héraðsstjórnin ætti ekki að nýta dagskrárvald sitt til þess að koma „valdaræningjum til varnar“.

Nú þegar standa yfir réttarhöld yfir tólf leiðtogum katalónsku sjálfstæðishreyfingarinnar, ráðherrum, þingforseta og leiðtogum frjálsra félagasamtaka, í hæstarétti í Madríd. Tvær spænskir lögreglumenn mættu í skýrslutöku í gær og vöktu máls á því að katalónska lögreglan hafi verið aðgerðalaus á kjördag og að kjósendur hafi beitt lögreglu ofbeldi. Ákærðu hafa hins vegar ítrekað sagt að spænska lögreglan hafi sjálf beitt óhóflegu afli.