Saksóknarar í St Louis í Bandaríkjunum hafa gefið út að þeir muni ekki ákæra lögregluþjóninn sem skaut hinn 18 ára Michael Brown til bana árið 2014.

Atvikið leiddi til stofnunnar Black Lives Matter-hreyfingarinnar og var uppspretta langrar mótmælaöldu í landinu.

Saksóknarar segja að fimm mánaða löng endurskoðun á málsatvikum hafi ekki leitt í ljós næg sönnunargögn til að draga fyrrum lögregluþjóninn Darren Wilson til saka fyrir manndráp.

Þrátt fyrir það sagði saksóknarinn Wesley Bell á blaðamannafundi að ekki væri hægt að útiloka að glæpur hafi þarna átt sér stað.

Þó ákæra hafi ekki verið gefin út hafi rannsóknin heldur ekki hreinsað Wilson af öllum ásökunum.

Líklega olía á eld mótmælaöldu

Tilkynning saksóknaranna kemur á sama tíma og hörð mótmæli halda víða áfram í Bandaríkjunum vegna dauða George Floyd.

Árið 2015 komst bandaríska dómsmálaráðuneytið að þeirri niðurstöðu að Wilson hafi skotið Brown í sjálfsvörn.

Ósamræmi er í lýsingum lögreglu, sjónarvotta og fjölskyldu Brown á því hvernig andlátið bar að þann 9. ágúst 2014.

Þó liggur fyrir að sögn saksóknara að Wilson hafi verið að keyra lögreglubíl þegar hann sá Brown á gangi ásamt öðrum vini sínum. Nokkrum mínútum síðar var Brown látinn með minnst sjö skotsár.

Lá lík hans í götunni í fjórar klukkustundir áður en það var fjarlægt af vettvangi. Alls skaut Wilson tólf byssukúlum í átt að Brown.