Héraðssaksóknari hefur ákært mann og konu fyrir gróf kynferðisbrot gagnvart börnum þeirra. Rannsókn málsins hófst í sumar og hefur maðurinn setið í gæsluvarðhaldi síðan þá. Konan sat í gæsluvarðhaldi um tveggja vikna skeið en hefur síðan verið í farbanni allt þar til hún var úrskurðuð í gæsluvarðhald á ný í síðustu viku.

Þetta kemur fram í tveimur úrskurðum Landsréttar sem birtir voru í gær. Í úrskurðunum kemur fram að parið sé ákært fyrir að hafa nauðgað dóttur konunnar, sem er stjúpdóttir mannsins, og hafa tekið athæfið upp á myndband. Þá eru þau ákærð fyrir að hafa veitt henni áfengi og fyrir að hafa framleitt klámefni. Systir stúlkunnar, sem er barn þeirra beggja, fylgdist með athæfinu og eru þau ákærð fyrir blygðunarsemisbrot vegna þess. Stúlkurnar eru báðar yngri en fimmtán ára.

Konan játaði sök að hluta í sumar og var sleppt í kjölfar þess. Í þeim yfirheyrslum sagði hún að hún hefði verið mjög ölvuð þegar nauðgunin á að hafa átt sér stað og þá gerði hún mjög lítið úr hlut sínum. Þegar myndbandsupptökur af atvikinu voru rannsakaðar, en þær fundust á myndavél sem falin var í fataskáp á heimili fólksins, kom í ljós að þáttur konunnar var mun meiri en hún hafði gefið til kynna og tók hún að mati ákæruvaldsins virkan þátt í hinu meinta broti.

Maðurinn er að auki ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa haft í vörslu sinni myndlykla, tölvur og geisladiska sem innihéldu yfir 800 ljósmyndir og 29 hreyfimyndir af barnaklámi. Þá er hann ákærður fyrir brot gegn vopnalögum og fyrir brot í nánu sambandi með því að hafa ítrekað rassskellt dóttur sína og annað barn.

Gæsluvarðhald parsins er á grundvelli almannahagsmuna og rennur út 31. október.