Íslenska fraktflugfélagið Air Atlanta hefur tekið Boeing 747-400 vélina TF-AAK úr loftinu og komið henni fyrir í geymslu. Vélin er betur þekkt sem Ed Force One og flaug með þungarokkssveitina Iron Maiden um allan heim fyrir nokkrum árum.

Aðdáendur hljómsveitarinnar fylgjast enn þá grannt með ferðum vélarinnar, sem notuð var á Book of Souls túrnum árið 2016. En Bruce Dickinson, söngvari sveitarinnar, er sjálfur flugmaður og flaug fyrir flugfélagið Iceland Express fyrir rúmum áratug. Þessi vél Atlanta var merkt í bak og fyrir með merki hljómsveitarinnar og hinu fræga lukkudýri hennar, Ed, á stélinu en þessar merkingar hafa síðan verið fjarlægðar.

Atlanta leigði Ed Force One til arabíska flugfélagsins Saudi Arabian Airlines árin 2016 til 2020. Félagið hefur notað hana síðan, meðal annars til að ferja aðdáendur íslenska landsliðsins í fótbolta til Ungverjalands. Síðast var hún notuð til að fljúga milli Hollands og Bandaríkjanna. Samfélag Iron Maiden-aðdáenda fylgdist alltaf með henni og margir mættu til að sjá hana taka á loft eða lenda.

Samkvæmt flugeftirlitssíðum var Ed Force One tekin úr notkun þann 15. apríl og fjórum dögum seinna sett í geymslu í bænum Kimble í vesturhluta Bretlands.

Söngvarinn Bruce Dickinson er flugmaður og mikill flugáhugamaður eins og sést þegar hann syngur Aces High
Fréttablaðið/Getty