Tæplega helmingur sjúklinga sem gengust undir opna hjartaaðgerð hér á landi leysti út morfínskyld lyf eftir aðgerð og tíu prósent þeirra héldu áfram að leysa slík lyf út í meira en þrjá mánuði. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem greint var frá í virtu alþjóðlegu vísindatímariti bandarískra hjarta- og lungnaskurðlækna. Rannsóknin náði til 925 sjúklinga sem gengust undir opna hjartaaðgerð á árunum 2005-2018 og má því áætla að hátt í fimmtíu manns hafi enn neytt morfínskyldra lyfja þremur mánuðum eftir aðgerð.

„Þetta er áhyggjuefni að því leyti að þessir sjúklingar taka ekki morfínskyld lyf í fyrri aðgerðum þannig að þetta er fólk sem er í raun og veru að hefja langvinna notkun morfínskyldra lyfja,“ segir Martin Ingi Sigurðsson, prófessor og yfirlæknir í svæfinga- og gjörgæslulækningum við Landspítala, sem leiddi rannsóknina ásamt teymi íslenskra og bandarískra vísindamanna.

„Það er meiri háttar mál að sjúklingar séu á langvinnri meðferð með morfínskyldum lyfjum. Það eru ekkert svo margir sjúkdómar sem gefa augljósa ástæðu til að vera á morfínskyldum lyfjum í langan tíma. Stundum bætist hreinlega við annað vandamál, stundum erum við að sjá að verkirnir eru illa meðhöndlaðir og þess vegna festist fólk á þessum lyfjum og þá er náttúrlega hættan að það verði til tvö vandamál, illa meðhöndlaðir verkir og svo fólk sem er orðið líkamlega háð þessum lyfjum og á erfitt með að hætta,“ segir Martin.

Hann segir morfínskyld lyf, einnig kölluð ópíóíðar, vera frábær til skammvinnrar verkjameðferðar en þau séu hins vegar mjög vandmeðfarin til langvinnrar meðferðar. Þá er nær ómögulegt að komast hjá því að nota morfínskyld lyf við skurðaðgerðir því önnur lyf sem eru jafn öflug eru hreinlega ekki í boði.Mikið hefur verið rætt um misnotkun morfínskyldra lyfja í Bandaríkjunum og hefur jafnvel verið talað um faraldur í þeim efnum vestanhafs. Aðspurður hvort læknar sjái slæmar afleiðingar af langvarandi notkun slíkra lyfja hér á landi segir Martin:

Martin Ingi Sigurðsson, prófessor í svæfinga-og gjörgæslulækningum.
Fréttablaðið/Aðsent

„Það er náttúrlega ákveðinn hópur fólks sem þróar með sér þol og að einhverju leyti fíknihegðun þannig að fólk þarf stærri og stærri skammta fyrir sömu virkni. Þessi lyf eru náttúrlega meðvirkandi í talsverðum fjölda dauðsfalla til dæmis í Bandaríkjunum. Lyfjaeitranir sem valda andlátum eru langoftast af völdum morfínskyldra lyfja í Bandaríkjunum. Í vissum aldursflokkum, hjá yngra fólki sérstaklega, er það orðin algengasta ástæða þess að fólk deyr. Það eru tugþúsundir Bandaríkjamanna sem látast á hverju ári þar sem morfínskyld lyf koma við sögu.“

Rannsakendur mæla með ítarlegri eftirfylgd sjúklinga eftir útskrift með tilliti til verkjaástands og að sjúklingar fái aðstoð við niðurtröppun morfínskyldra lyfja í kjölfar hjartaskurðaðgerða. Martin segir mikilvægt að komast að því hvaða viðvörunarmerkjum þarf að fylgjast með til að finna sjúklinga sem þurfa á aðstoð á halda og að áframhaldandi rannsóknir séu í kortunum.

„Það er áhugavert samstarfsverkefni í gangi á milli Landspítalans og Heilsugæslunnar um að styðja fólk í aðdraganda skurðaðgerðar og það væri náttúrlega rakið framhaldsverkefni að reyna að átta sig á því hvaða sjúklingar eru í áhættuhópi og á hvaða tímapunkti þarf að grípa inn í. Því auðvitað þurfa alls ekki allir einhver flókin úrræði.“

Með Martin stóðu að rannsókninni Arnar Bragi Ingason, sérnámslæknir í skurðlækningum, Tómas Guðbjartsson, prófessor og yfirlæknir á skurðlækningasviði Landspítala, Arnar Geirsson, prófessor og yfirlæknir á hjartaskurðdeild Yale New Haven spítala, og Jochen D. Muehlschlegel, dósent í svæfingarlæknisfræði við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum