Íbúar í Hafnarfirði hafa lýst yfir áhyggjum yfir deiliskipulagsbreytingu sem gerir ráð fyrir að hægt verði að fjarlægja eða rífa húsaröð vestan við Reykjavíkurveg til að breikka veg fyrir Borgarlínu.

Jóhannes Þór Skúlason, formaður Samtaka Ferðaþjónustunnar og íbúi í Hafnarfirði, setti nýlega inn færslu á Facebook þar sem hann hvetur íbúa til að mótmæla áformunum þar sem húsin séu mikilvægur hluti heildarmyndar svæðisins. Í gær, 30. nóvember, er síðasti dagur þar sem hægt er að skila inn athugsemdum vegna skipulagsins.

„Það er algerlega galið að þetta skuli sett upp með þessum hætti, að undanskilja þessa húsaröð verndarsvæði í byggð í vesturbænum, þegar húsakönnunin sýnir augljóslega að þessi hús eru mikilvægur hluti heildarmyndar svæðisins,“ segir Jóhannes í færslunni og lætur meðfylgjandi mótmælabréf sem hann sendi til skipulagsráðs Hafnarfjarðabæjar.

Í bréfinu segir Jóhannes að það sé „fullkomlega fráleit hugsun að rífa eða fjarlægja fjölmörg hús sem með réttu ættu að vera hluti af skilgreindu verndarsvæði í byggð til að leggja meira malbik.“ Þá hvetur hann bæjarfulltrúa að finna lausnir á því sem ekki fela í sér að rífa hús í menningarsögulegri og einstæðri byggð.

Nokkrar leiðir í stöðunni

„Tillagan er í umsagnarferli sem átti að renna út í dag en það var ákveðið að framlengja frestinn um eina viku út af umræðunni sem hefur sprottið upp um Reykjavíkurveginn svo fólk hafi tækifæri á að skoða þetta betur,“ segir Ólafur Ingi Tómasson formaður byggingar- og skipulgasráðs Hafnarfjarðarbæjar. „Við erum ekki búin að sjá allar athugasemdir frá íbúum ennþá.“

Ólafur segir að nokkrar leiðir séu færar til þess að greiða veg fyrir Borgarlínuna upp og niður Reykjavíkurveginn.

Fréttablaðið/Stefán

„Ein leiðin er sú að Borgarlínan aki í blandaðri umferð, önnur að þriðju akreininni verði bætt við þar sem Borgarlínan verði í einstefnu og skipulögð svo að þær séu ekki að mætast,“ segir hann. „Síðan er leiðin að breikka götuna þannig að það verði einnig pláss fyrir hjólandi og gangandi.“

Ólafur segir að enn sé verið að útfæra hugmyndirnar og að áhyggjur fólks yfir húsunum við Reykjavíkurveginn verði ekki endilega að veruleika.

„Í deiliskipulaginu eru gefnar heimildir fyrir því að flytja hús eða fjarlægja ef til þess kæmi að það þyrfti að endurhanna aðkomu til Hafnarfjarðar í kringum Reykjavíkurveg. Það gæti komið til þess en það er ekkert fullyrt um að það verði gert,“ segir Ólafur. „Eins og svo margar skipulagsbreytingar þá hefur skapast umræða í kringum þetta og maður skilur það vel. Það er ekkert ómögulegt að þetta verði bara tekið út.“