„Þetta eru stórtíðindi sem komu bókaútgefendum á Íslandi algerlega á óvart,“ segir Jónas Sigurgeirsson hjá Bókafélaginu um sölu Máls og menningar á 70 prósenta hlut í bókaútgáfunni Forlaginu, til sænska hljóðbókarisans Storytel.

„Þetta breytir litlu til skemmri tíma, en er auðvitað tímanna tákn því það hefur verið mikil aukning í útgáfu hljóðbóka,“ segir Jónas.

Annar bókaútgefandi, sem ekki vill koma fram undir nafni, segir aftur á móti að útgefendur séu áhyggjufullir. Tveir stærstu útgefendur bóka á Íslandi séu að sameinast, því Storytel teljist útgefandi, auk þess að vera endursöluaðili.

Kveðst þessi útgefandi þurfa að framselja útgáfuréttinn til Storytel, er hann setji bækur þangað. Þá búi Storytel til nýtt, svokallað ISBN númer fyrir bækurnar, og fái þannig aðgang að endurgreiðslu útgáfukostnaðar frá ríkinu. Honum þyki ótrúlegt að samkeppniseftirlitið samþykki kaupin. Hann hafi áhyggjur af því að þurfa nú að selja sínar bækur hjá Storytel, sem jafnframt sé orðið stærst á sviði prentaðra bóka.

Halldór Guðmundsson, formaður stjórnar Máls og menningar, sem heldur eftir 30 prósenta hlut í Forlaginu, sagðist í færslu á Facebook í gær viss um að salan til Storytel gæti aukið útbreiðslu íslenskra bókmennta.

„Allt starfsfólk Forlagsins verður áfram og nú mun raf- og hljóðbókavæðing hjá höfundum þess hljóta byr undir báða vængi, til hagsbóta fyrir lesendur,“ sagði Halldór.