Innflutningur og sala á rafhlaupahjólum, eða rafskútum, hefur aukist mikið á síðustu árum. Hægt er að kaupa slík tæki á fjölmörgum sölustöðum. Eru nú starfræktar tvær leigur í Reykjavík, þar af ein sem býður upp á hlaupahjól allt árið um kring með negld dekk. Stefnir allt í mikla aukningu á notkun í sumar. Lögreglan hefur áhyggjur af þróuninni í ljósi reynslu annarra þjóða.

„Við höfum áhyggjur af þessu. Við höfum komið þeim á framfæri við Samgöngustofu,“ segir Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri í umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. „Við urðum nokkuð vör við þessi hlaupahjól síðasta sumar. Það eru skráð sex slys á hlaupahjólum í fyrra hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu“

Jökull Sólberg Auðunsson ráðgjafi hefur fylgst vel með rafhlaupahjólamarkaðnum, bæði hér á landi og erlendis, hann segir rafhjólin komin til að vera. „Það er mögulegt að svona rafknúinn ferðamáti fari að saxa á bíla, við erum að sjá Póstinn vera að nota rafmagnshjól og svo veit ég að það hefur verið skoðað að senda mat á rafhjólum,“ segir Jökull. Verð á rafhlaupahjólum hefur farið lækkandi, er hægt að fá þau á allt niður í 50 þúsund krónur.

25myn24mynd20220806_ar04_2.jpg

Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri

Varðandi slys segir Jökull Sólberg að hjól séu öruggari en hlaupahjólin. „Þyngdarpunkturinn er hærri til dæmis. En það er eitthvað sem heillar á móti, þetta er skemmtilegt og fólk virðist vera opið fyrir að prófa þetta.“

Samkvæmt umferðarlögum mega rafhlaupahjól eingöngu vera á gangstéttum og göngustígum, ekki á götum. Gangandi vegfarendur eiga alltaf réttinn á gangstéttum eða göngustígum. Hjólreiðamaður eða sá sem er á rafmagnshlaupahjóli á að víkja fyrir gangandi vegfarenda. Þá er hjálmaskylda fyrir alla undir 16 ára aldri. Einnig er bannað að keyra á þeim undir áhrifum áfengis.

„Við höfum verið í sambandi við kollega okkar á hinum Norðurlöndunum. Þar eru vandamál í kringum rafhlaupahjólaleigur þar sem ölvaðir einstaklingar leigja hjól og valda slysum á sér og öðrum. Við sáum eitt slíkt slys í fyrra hér á landi,“ segir Árni. „Við höfum áhyggjur en á móti kemur að þetta er sniðugur ferðamáti og umhverfisvænn ef þetta er notað rétt. Nú verður að koma í ljós hvernig Íslendingar geta unnið á gangstéttum ýmist gangandi, hjólandi, skokkandi eða á rafhlaupahjólum.“