Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð Reykjavíkurborgar lýsa yfir áhyggjum af stöðu eineltismála, aukinni ofbeldismenningu meðal ungmenna og hatursorðræðu og auknu aðkasti sem hinsegin ungmenni verða fyrir.

Ráðið ályktaði á síðasta fundi sínum um þessi þrjú atriði.

Hrikalegar frásagnir af einelti hafa birst að undanförnu og segir ráðið að óbreytt ástand kalli á endurskoðun núverandi verkferla og ekki síður endurskoðun framkvæmdar á þeim verkferlum sem til staðar eru – ekki síst með hliðsjón af stafrænu ofbeldi og snjallsímanotkun grunnskólabarna.

Þá lýsti ráðið yfir áhyggjum af aukinni ofbeldismenningu á meðal ungmenna og ekki síst auknum vopnaburði ungmenna. Ráðið telur mikilvægt að öll svið og stofnanir borgarinnar kanni ítarlega með hvaða hætti viðkomandi svið eða stofnun hefur snertiflöt við aukna ofbeldismenningu meðal ungmenna og til hvaða úrræði mætti grípa í því samhengi.

Loks lýsti ráðið yfir áhyggjum af auknu aðkasti sem hinsegin ungmenni verða fyrir. Ráðið telur brýnt að Reykjavíkurborg vinni kerfisbundið gegn þessu vandamáli og styðji vel við og tryggi fjármögnun allra þeirra verkefna sem í gangi eru innan borgarinnar, til dæmis Regnbogavottun, Hinsegin félagsmiðstöðina og frístundastarf fyrir hinsegin börn 10–12 ára.