Sveitarstjórn Fjallabyggðar leggst hart gegn frumvarpi Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfisráðherra um ofanflóðavarnir. Það feli í sér tilfærslu á eignarhaldi varnarvirkjanna og þrengingu á möguleika til bóta. Það er að rétturinn verði einskorðaður við íbúðarhúsnæði.

„Ríkið hefur með almannavarnir í landinu að gera. Verði frumvarp umhverfisráðherra um ofanflóðavarnir lögfest óbreytt, meðal annars um breytt eignarhald á mannvirkjum, mun ríkið ekki lengur hafa óskilyrta greiðsluskyldu til að viðhalda þessum almannavarna mannvirkjum,“ segir Elías Pétursson bæjarstjóri. „Sveitarfélögin munu þá þurfa að koma á hnjánum til ríkisvaldsins hvert sinn sem eitthvað þarf að gera og óska samþykkis á styrkveitingum til þeirra þar sem þau hafa enga burði til þess að reisa snjóflóðavarnir og viðhalda slíkum mannvirkjum án fjárhagslegrar aðkomu ríkisins.“

Drög að nýju hættumati eru tilbúin fyrir Siglufjörð og hafa verið kynnt sveitarstjórn. Ljóst er að bæta þurfi varnirnar, bæði garðana og girðingar. Reiknað er með að kostnaðurinn fyrir girðingarnar einar og sér sé yfir milljarð króna.

Segir Elías einnig að með frumvarpinu sé girt fyrir að ríkið taki þátt í kostnaði við að fjarlægja eða færa mannvirki af hættusvæðum, sem eru í dreifbýli og falli ekki undir skilgreiningu íbúðarhúsnæðis. Þetta dragi úr möguleikum Ofanflóðasjóðs til að styðja við uppkaup sveitarfélaganna á eignum. „Þær eignir verða mögulega verðlausar þegar ný hættumöt líta dagsins ljós,“ segir Elías. En eftir flóðin á Flateyri í janúar hefur Veðurstofan ráðist í gerð nýs hættumats í nokkrum byggðarlögum.

Skíðasvæðið á Siglufirði, sem er í eigu sjálfseignarstofnunarinnar Leyningsáss, er innan hættusvæðis og mun þurfa að færa skíðalyftu og skíðaskála með tugmilljóna kostnaði. En Leyningsás er samvinnuverkefni Fjallabyggðar og Róberts Guðfinnssonar hóteleiganda. Skálinn og lyfturnar fullnægðu öllum leyfum þegar þær voru reistar árið 1988 en síðan hafa verið settar á kvaðir.

Þá hefur Leyningsás staðið í stappi við ríkið vegna snjóflóðavöktunar. Árið 2018 úrskurðaði Umboðsmaður alþingis að ákvörðun ríkisins um að hafna því að greiða fyrir vöktun hefði ekki verið í samræmi við lög. Með nýju löggjöfinni verður snjóflóðaeftirlitið á skíðasvæðum á ábyrgð rekstraraðila.

Samkvæmt fjárlögum verða 2,7 milljarðar settir í ofanflóðavarnir á næsta ári, 1,6 milljörðum meira en á þessu. Elías tekur hins vegar undir með Halldóri Halldórssyni, fyrrverandi formanni Ofanflóðasjóðs, að varnirnar „eigi inni“ hjá ríkinu þar sem eyrnamerkt fjármagn hafi verið notað í annað á undanförnum árum.

„Nú er verið að setja mikla peninga í ofanflóðavarnir af því að það varð flóð á Flateyri, rétt eins og gert var eftir flóðin árið 1995,“ segir Elías. „Ég hef áhyggjur af því að eftir því sem líður lengra frá flóði hallist ríkið til þess að nota peningana í annað, þó þeir séu eyrnamerktir ofanflóðavörnum, og þá verður auðvelt að fella kostnað á sveitarfélögin, það er verði frumvarpið að lögum. Reynslan kennir okkur það.“