„Við höfum miklar áhyggjur af þessari þróun. Sérstaklega hversu mikil aukningin er í útflutningi óunnins þorsks á þessu ári,“ segir Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, um nýja skýrslu Háskólans á Akureyri. Sýnir hún mikla aukningu í útflutningi á óunnum fiski á undanförnum árum. „Með þessu stefnum við að því að vera hráefnisland, sem bæði veikir byggðirnar og lækkar atvinnustigið. Þá auðveldar þetta einnig fyrirtækjum að stýra hvar þau eru skattlögð og hvar hagnaðurinn er tekinn út.“

Fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar áttu fund með atvinnumálanefnd Alþingis á mánudag. Viðruðu þeir þar áhyggjur sínar af ástandinu og lögðu til aðgerðir til að sporna við þessu. Til að mynda svokallað gámaálag sem áður tíðkaðist, það er gjaldheimta á útfluttan óunnin fisk.

Þá telur verkalýðsforystan vanta mun meiri upplýsingar um hvernig þessi viðskipti fara fram í dag. „Það skortir gagnsæi í þessu kerfi. Það virðist vera sem aðilar kaupi fiskinn hér til að vinna í löndum þar sem launin eru lægri. En við fáum ekki að vita hverjir þeir eru,“ segir Flosi. Óunninn fiskur er einna helst fluttur út til Póllands og annarra landa Austur-Evrópu.

Áhrif þróunarinnar koma hvað harðast niður á fiskvinnslufólki og þeim fiskvinnslum sem ekki reka eigin útgerð og reiða sig á markaði. Flosi tekur Ísfisk á Akranesi sem dæmi, en sú vinnsla varð gjaldþrota í febrúar. „Þarna misstu tugir okkar félagsmanna vinnuna,“ segir hann.

Útflutningur óunnins fisks er ekki eina ástæðan fyrir því að fiskvinnslufólki hefur verið að fækka. Tækninýjungar í greininni spila einnig rullu. Starfsgreinasambandið hefur ályktað um að fullvinna ætti fisk eins og hægt er hér á landi. Þetta sé bæði byggðamál og að einhverju leyti kynjamál. „Konurnar missa störfin úti á landi og þau störf sem skapast eru í Reykjavík,“ segir Flosi.

Þó að Flosi taki undir með skýrsluhöfundum um að fiskvinnslur eigi við vanda að stríða þá gagnrýnir hann þá áherslu sem er lögð á „órofna virðiskeðju“ útgerðanna. Það geti ekki verið forsenda nýsköpunar eins og komi fram heldur sé nýsköpun hvað öflugust í smærri fyrirtækjum.

„Það er ekki lögmál í neinni matvælaframleiðslu að öll virðiskeðjan sé á sömu kennitölunni,“ segir Flosi. Nefnir hann kjötvinnslu til samanburðar. Það sé ekki sami aðili sem eigi kindurnar, slátri og verki kjötið og selji það til neytandans.

Aðspurður um samkeppnissjónarmiðin, það er hvort íslensk fiskvinnsla geti keppt við ódýrari fiskvinnslur í Austur-Evrópu segir Flosi svo vera. „Íslensk fiskvinnsla með sinni tækni, þekkingu og frábæra starfsfólki getur keppt við vinnslur hvar sem er í heiminum,“ segir hann.