Heimsfaraldur covid, skortur á hráefnum í lyf og lengri tímalínur fyrir framleiðslu og afhendingu lyfja hafa leitt til þess að íslensk yfirvöld fylgjast grannt með hvort ástæða sé til að óttast lyfjaskort hér á landi.

„Það hafa verið áhyggjur á Íslandi um mögulegan lyfjaskort, tengt covid. Það þekkja allir sem eru í innflutningi að tímalínur hafa lengst. Við könnumst ekki enn við lyfjaskort enn, en við erum mjög vakandi fyrir ástandinu eins og aðrar þjóðir í Evrópu,“ segir Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar.

Sérstakt teymi um lyfjaskort er starfrækt innanlands og er í beinu sambandi við heildsala að sögn Rúnu. Mjög mikið púður hafi verið sett í bóluefnaframleiðslu undanfarið og álagið sé mikið. Evrópska lyfjastofnunin sé með vöktun vegna þessa.

Lyfjamarkaðurinn á Íslandi er mjög lítill í alþjóðlegu samhengi sem getur bæði verið kostur og galli að sögn Rúnu. Vegna fámennis sé landið ekki efst á lista lyfjaframleiðenda en á móti kemur að þörfin er minni. Rúna bendir á að alltaf séu að koma ný og ný lyf á markað, ekki síst vegna covid. Helsta áhyggjuefnið nú sé flutningstafir.

Skipta um lyf

Óskar Reykdalsson, forstjóri heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að færst hafi í vöxt að læknar þurfi að breyta tilvísun, tilvísa öðru lyfi en til stóð eftir að afhending tiltekins lyfs hafi tafist.

„Hingað til höfum við getað bjargað okkur ágætlega með því að skipta um lyf,“ segir Óskar.

Hann segist ekki vita bein dæmi þess að læknar hafi neyðst til að tilvísa lakari lyfjum en ella vegna lyfjaskorts.

„Ég ítreka að ástandið hefur ekki hingað til haft alvareg áhrif. En þetta getur þýtt smávinnu.“

Óskar segir að heilsugæslulæknar noti mest margnota lyf frá mörgum framleiðendum. Þótt einn klikki hafi aðrir náð að hlaupa í skarðið.