Stofnanir sem gefa umsagnir um áformaða þrettán hektara landfyllingu í Elliðavogi hvetja til þess að farið verði með ítrustu gát til að spilla ekki fyrir laxastofni Elliðaánna.Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur er þessi fyrirhugaða landfylling eitt af þremur lykilsvæðum í framtíðaruppbyggingu í borginni.

Í matsskýrslu frá borginni sem Skipulagsstofnun tók til skoðunar er talið að samtals þurfi 1,0 til 1,2 milljónir rúmmetra af efni í landfyllinguna sem verði varin af sjóvarnargörðum. Í garðana þurfi um 21 þúsund rúmmetra af grjóti. Taka muni þrjú til fjögur ár að ljúka við landfyllinguna.Iðnaðarstarfsemi, þar með talin starfsemi jarðefnafyrirtækisins Björgunar, á svæðinu verður lögð af og í staðinn kemur blönduð byggð.

Fyrsti áfanginn verður 2,5 hektarar. Gert er ráð fyrir að 90 prósent af því efni sem til þarf, sem áætlað er að séu um 240 þúsund rúmmetrar, fáist af athafnasvæði Björgunar. Afgangurinn fáist með dælingu af sjávarbotni.

Áhyggjur eru af stöðu Elliðaánna sem laxveiðiár.
Fréttablaðið/Stefán

Veigamiklum spurningum ósvarað

Segir Skipulagsstofnun að það mat á umhverfisáhrifum sem þegar hafi farið fram sé nægilegur grundvöllur til að leyfa 1. áfanga að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. „Ljóst er að enn er ósvarað veigamiklum spurningum um áhrif 2. og 3. áfanga landfyllingarinnar á laxfiska,“ segir stofnunin hins vegar.

Í fyrsta lagi segir Skipulagsstofnun að kanna þurfi hættu á mengun úr neðri lögum botnsets áður en farið sé í fyrsta áfangann. Þá þurfi að afmarka framkvæmdasvæðið með görðum eða öðrum aðgerðum til að takmarka eins og hægt sé að grugg berist til búsvæða laxfiska á ósasvæði Elliðaánna. Og í þriðja lagi setur Skipulagsstofnun það skilyrði að framkvæmdatíminn sé „bundinn við þann tíma árs þegar laxfiska er almennt ekki að vænta á ósasvæðinu“.

Eitt helsta áhyggjuefnið vegna hugsanlegra neikvæðra áhrifa landfyllingarinnar tengist einmitt silungi og laxi. Segir Skipulagsstofnun að sýnt hafi verið fram á mikilvægi ósasvæðisins fyrir gönguseiði og fullorðinn lax við lífeðlisfræðilega aðlögun að breyttu seltumagni. Í Elliðaám og Elliðavatni sé að finna allar tegundir ferskvatnsfiska hérlendis, það er lax, bleikju, urriða, hornsíli og ál. Allar þessar tegundir geti farið á milli ferskvatns og sjávar.

Þá segir að göngutími fiska skipti verulegu máli gagnvart öllum framkvæmdum í Elliðaárvogi. Fiskur sé að ganga til og frá sjó frá apríl fram í nóvember. Því séu það aðeins fimm vetrarmánuði sem ekki sé samgangur fiska milli sjávar og ferskvatns í Elliðaárvogi.

Vitnað er til umsagnar Veiðimálastofnunar sem segir að fara þurfi að öllu með gát. „Er bent á að ef hin fyrirhugaða landfylling auki afföll fiska umtalsvert séu miklir hagsmunir í húfi, bæði veiðihagsmunir og þeir hagsmunir sem fylgja þeirri hreinleikaímynd að hafa upprunalegan laxastofn í miðri höfuðborg.“

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur og Fiskistofa taka í sama streng og Veiðimálastofnun varðandi fiskana. Sama gildir um Skrifstofu umhverfisgæða hjá Reykjavíkurborg sem segir „nauðsynlegt að ítrustu varfærni verði gætt við þessa framkvæmd enda einstakt að hafa laxveiðiá í miðri höfuðborg og því beri að hlúa að ánum frekar en að skapa aukið álag og áhættu“.