Um helgina voru haldnir útitónleikar og leiksýningar úti á götu í miðbæ Reykjavíkur. Viðburðir sem eiga að halda áfram út aðventuna. Meðal annars kom tónlistarmaðurinn Auður fram á gluggatónleikum á Prikinu á laugardaginn þar sem stór hópur fólk safnaðist saman.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir var spurður um slíka hópmyndun á upplýsingafundi almannavarna í hádeginu.

„Ég veit að það sem var fyrir utan Þjóðleikhúsið var byggt á leyfi frá heilbrigðisráðuneytinu. Ég veit ekki hvort það var leyfi á bak við aðra viðburði sem fóru fram og hvernig því var háttað en auðvitað hefur maður áhyggjur af þessum fjölda einstaklinga sem sást á Laugaveginum um helgina."

Þórólfur gat ekki svarað fyrir hvort um brot á sóttvarnareglum hafi verið að ræða á útitónleikum sem haldnir voru um helgina.
Fréttablaðið/Anton Brink

Hann segist vona að þetta sé ekki vísbending um að svo verði áfram fram að jólum en gat ekki svarað fyrir það hvort að um brot á sóttvarnareglum hafi verið að ræða á tónleikunum á Prikinu þar sem að hann vissi ekki nákvæmlega hvernig staðhættir voru.

„Þær myndir sem hafa verið teknar af þessum tónleikum sýna að fólk hefur ekki verið að passa sig og fólk gefur ekki verið að virða tíu manna regluna um fjöldatakmörkun né tveggja metra regluna.

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn tók í sama streng en segir að málið sé í höndunum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

„Ég veit að lögreglan er mjög dugleg að fylgja þessu eftir hvað varðar veitingastaði og annað. Svona hópmyndun getur verið varhugaverð með tilliti til útbreiðslu veirunnar, þó svo að hún eigi sér stað utandyra."