Forstjóri Síldarvinnslunnar segir kaup félagsins á útgerðarfélaginu Vísi í Grindavík dæmi um skynsamleg viðskipti. Þingmaður Viðreisnar hefur áhyggjur af frekari samþjöppun í sjávarútvegi og segir þjóðina kalla eftir sanngirni.

Hlutabréf í Síldarvinnslunni hækkuðu um 7,4 prósent í viðskiptum gærdagsins eftir að félagið tilkynnti um kaup á útgerðarfélaginu Vísi í Grindavík.

Samtals nema viðskiptin um 31 milljarði króna en með þeim verða seljendur í Grindavík meðal kjölfestufjárfesta í Síldarvinnslunni hf.

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, telur kaupin sýna enn og aftur hve brýnt sé að fara ofan í saumana á núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi.

„Við erum að horfa upp á enn frekari samþjöppun á eignarhaldi. Það er það sem er að gerast. Yfirráð yfir auðlindum þjóðarinnar færast á sífellt færri hendur.“

Að sögn Hönnu Katrínar er heldur lítið eftir af helstu rökum þeirra sem hafa staðið vörð um óbreytt kerfi.

„Þeir sem harðast hafa gengið fram hafa einmitt haldið því fram að þær breytingar, sem við í Viðreisn höfum talað fyrir, muni leiða til samþjöppunar á eignarhaldi. Sem er einmitt það sem er að gerast innan núverandi kerfis. Það er stóra myndin í þessu. Það fer að verða heldur lítið eftir af helstu rökum þeirra sem standa á bremsunni, verð ég að segja.“

Hanna Katrín segir þetta enn eina sönnun þess að þjóðin geti ekki beðið mikið lengur eftir aðgerðum.

„Það þarf ekkert að skrifa fleiri skýrslur um þessi mál. Það er búið að kortleggja allt sem þarf að kortleggja. Stjórnmálamenn þurfa bara að hafa kjark til að standa með almannahagsmunum og ráðast í þær breytingar á kerfinu sem meirihluti þjóðarinnar er að kalla eftir.“

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar og Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar.
Mynd/samsett

Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, segist ekki gefa mikið fyrir gagnrýni á viðskipti sem hann segir marka ákveðin þáttaskil og fela í sér stórtíðindi.

„Ég hef heyrt fólk lýsa yfir ánægju með viðskiptin en ég kannast líka alveg við gagnrýnina.“

Að hans mati er frekar sérstakt að heyra stjórnmálamenn gagnrýna viðskipti sem muni styrkja tvö öflug félög og séu í rauninni til þess fallin að auka gagnsæi.

„Síldarvinnslan er skráð félag á markað og í rauninni eru eigendur Vísis að skrá sitt félag á markað í gegnum Síldarvinnsluna með þessari sölu.

Það er í anda þess sem kallað hefur verið eftir. Að auka gagnsæi í sjávarútvegi. Ég myndi því telja þetta jákvætt skref í þá átt.“

Að mati Gunnþórs er vel hægt að benda á aukna samþjöppun í sjávarútvegi við þessi tíðindi.

„En fyrir mér eru þetta fyrst og fremst skynsamleg viðskipti. Vísir hefur fjárfest í fullkominni vinnslu í Grindavík. Fyrirtækið hefur yfir hátæknivinnslu að ráða í námunda við alþjóðaflugvöll og Síldarvinnslan kemur að borðinu með heimildir.

Þar af leiðandi passa þessi félög vel saman. Við erum sannfærð um að viðskiptin muni styrkja bæði félögin til lengri tíma. Það er það sem vakir fyrir okkur,“ segir Gunnþór.

Kaup Síldarvinnslunnar á Vísi eru háð niðurstöðu áreiðanleikakönnunar og samþykki hluthafafundar Síldarvinnslunnar hf. og Samkeppniseftirlitsins.

Svandís Svavarsdóttir mat­væla­ráðherra sagðist í samtali við Fréttablaðið ekki ætla að tjá sig um viðskiptin, eða hvaða þýðingu þau kunni að hafa, fyrr en Samkeppniseftirlitið hefur haft tækifæri til að fara yfir málið.