Foreldrar barna og unglinga á Seltjarnarnesi og kennarar í Valhúsaskóla ítreka verulegar áhyggjur sínar af stöðu æskulýðs- og forvarnarstarfs unglinga á Seltjarnarnesi. Þau segja ástandið ólíðandi.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í yfirlýsingu sem send var öllum bæjar- og varabæjarfulltrúum í bæjarstjórn Seltjarnarness í tölvupósti í mars síðastliðnum.

Yfirlýsingin var opinberuð á Facebook í gærkvöldi í kjölfar þess að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð út laust eftir miðnætti í gærnótt vegna samkvæmis í veislusal íþróttafélagsins Gróttu. Mikill fjöldi ungs fólks undir tvítugu var í samkvæminu og samkvæmt dagbók lögreglu var töluverð ölvun á staðnum.

Lögregla leysti samkvæmið upp sökum ungs aldurs gesta en þeir eru sagðir hafa verið á aldrinum 16 til 17 ára.

Ungmennapartí leyst upp

Í Facebook-færslu frá formanni foreldrafélags Grunnskóla Seltjarnarness í hverfishópi segir að atvikið sé ekki það fyrsta. „Við höfum ítrekað heyrt af sambærilegum bjórkvöldum framhaldsskólanema í sölum Gróttu. Til að mynda var eitt slíkt haldið um síðustu helgi þar sem fyrrum Valhýsingar voru meðal gesta.“

Fulltrúar foreldrafélagsins hafi síðan í mars síðastliðnum barist fyrir því á öllum vígstöðvum að Grótta hætti að leigja sali sína fyrir viðburði þar sem drykkja barna undir lögaldri fer fram.

„Við höfum fundað bæði með núverandi og fyrrverandi bæjarstjóra, fræðslufulltrúa bæjarins og málið hefur verið tekið upp hjá skólanefnd bæjarins. Þetta er því ekki nýtt vandamál eða einstakt atvik,“ segir jafnframt í færslunni.

Standa vörð um ungmennin

Foreldrar fagni því að fréttir af atvikinu hafi knúið forsvarsmenn Gróttu til aðgerða og ábyrgðar. Í gær sendi íþróttafélagið frá sér yfirlýsingu vegna málsins þar sem fram kom meðal annars að leigjandi veislusalarins hafi brotið skilmála leigunnar með ungmennapartíinu.

„Við krefjumst þess að nú verði teknir upp breyttir og bættir starfshættir. Við munum halda áfram að standa vörð um ungmennin okkar og fylgja þessu máli eftir þar til gripið hefur verið til alvöru aðgerða,“ segir í færslunni og er vísað aftur til yfirlýsingarinnar frá því í mars.

Engar breytingar

Í yfirlýsingunni kemur fram að bæjaryfirvöld hafi fyrir tveimur árum dregið verulega úr framlögum til tómstunda- og æskulýðsstarfs.

Þá hafi staða æskulýðsfulltrúa í fullu starfi verið lögð niður og starfshlutfall forstöðumanns Selsins og Skeljarinnar skorið niður í 80 prósent.

„Af þessu erum við nú að súpa seyðið. Þessi illskiljanlega ákvörðun hefur komið niður á á faglegri forystu og stefnu í málaflokknum og það á sérstaklega erfiðum tímum vegna samkomutakmarkana sem skert hafa félagslíf og skólastarf.

Með fækkun fagfólks hefur verið dregið úr opnun og faglegu starfi félagsmiðstöðvarinnar ásamt því að starfsfólk hefur ekki svigrúm til að sinna forvarnarmálum og samstarfsverkefnum með sama hætti og áður,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni frá því í mars en skorað var á bæjaryfirvöld að bregðast við með því að ráða að minnsta kosti æskulýðsfulltrúa í fullt starf sem samkvæmt Facebook-færslunni í gær hefur ekki enn verið gert.