Tveir greindust með kórónuveiruna í gær og var annar þeirra sóttkví. Átta greindust með veiruna á landamærunum, samkvæmt upplýsingum frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.
Samkvæmt dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu voru alls fjórtán tilkynningar um samkvæmishávaða í nótt og ljóst er að mikið partýstand var á höfuðborgarsvæðinu fram eftir morgni.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, segir þetta mikið áhyggjuefni þar sem stærstu hópsmitin hérlendis hafa verið tengd skemmtanalífinu.
„Áhyggjuefnið er að þetta eru samkvæmi þar sem kallað er til lögreglu. Fólk sem hittist, fær sér að borða og hittir vini sína er ekkert sérstakt áhyggjuefni en þegar samkvæmi er orðið með þeim hætti að kallað er til lögreglu er líklegt að sóttvarnir séu ekki ofarlega í huga,“ segir Víðir.
„Ef það er mikið af slíku er maður með áhyggjur af því. Við höfum séð hópsmit koma upp úr djamminu. Stærstu hópsmitin sem við höfum fengið koma úr skemmtanalífinu og á meðan við erum ekki alveg örugg með þetta enn þá höfum við áhyggjur af þessu,“ segir Víðir.
Nauðsynlegt að vernda góðan árangur
Langflestar tilkynningarnar voru um samkvæmi í íbúðarhúsnæði í miðbænum en einnig bárust tilkynningar úr Háaleitis- og Bústaðarhverfi, Hlíðahverfi, Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi.
„Við erum með pínulítið fjöregg í höndunum núna. Að vera með ástand þar sem við getum haft stóran hluta af samfélaginu opin. Við getum gert miklu meira en við gátum fyrir nokkrum vikum síðan. Á sama tíma horfum við á löndin í kringum okkar sem tekur bara svona tvo og hálfan klukkutíma til að ferðast til fara í harðari aðgerðir heldur en nokkurn tíman áður í faraldrinum,“ segir Víðir.
„Það eru lönd eins og Noregur og Danmörk sem við miðum okkur mjög oft við. Þar er ástandið bara grafalvarlegt. Við viljum ekki fara þangað,“ segir Víðir og bætir við að það sé nauðsynlegt að vernda þann góða árangur sem hefur náðst á síðustu vikum.
„Við höfum náð frábærum árangri með samstöðu þjóðarinnar og nú þurfum að vernda hann. Við höfum lagt alveg gríðarlega mikið á okkur. Það hafa lagt alveg óhemjumikið á sig í vetur. Við skulum ekki missa það á okkur núna þegar við erum að fara stað með bólusetningar.“
Fáir hafa greinst með kórónuveiruna síðustu daga en Víðir hefur áhyggjur af því að tölurnar gætu verið blekkjandi þar sem afar fáir hafa verið að mæta í skimun.