Tveir greindust með kórónu­veiruna í gær og var annar þeirra sótt­kví. Átta greindust með veiruna á landa­mærunum, sam­kvæmt upp­lýsingum frá al­manna­varna­deild ríkis­lög­reglu­stjóra.

Sam­kvæmt dag­bók lög­reglunnar á höfuð­borgar­svæðinu voru alls fjór­tán til­kynningar um sam­kvæmis­há­vaða í nótt og ljóst er að mikið partý­stand var á höfuðborgarsvæðinu fram eftir morgni.

Víðir Reynis­son, yfir­lög­reglu­þjónn hjá al­manna­varna­deild ríkis­lög­reglu­stjóra, segir þetta mikið á­hyggju­efni þar sem stærstu hóp­smitin hér­lendis hafa verið tengd skemmtana­lífinu.

„Á­hyggju­efnið er að þetta eru sam­kvæmi þar sem kallað er til lög­reglu. Fólk sem hittist, fær sér að borða og hittir vini sína er ekkert sér­stakt á­hyggju­efni en þegar sam­kvæmi er orðið með þeim hætti að kallað er til lög­reglu er lík­legt að sótt­varnir séu ekki ofar­lega í huga,“ segir Víðir.

„Ef það er mikið af slíku er maður með á­hyggjur af því. Við höfum séð hóp­smit koma upp úr djamminu. Stærstu hóp­smitin sem við höfum fengið koma úr skemmtana­lífinu og á meðan við erum ekki alveg örugg með þetta enn þá höfum við á­hyggjur af þessu,“ segir Víðir.

Nauðsynlegt að vernda góðan árangur

Lang­flestar til­kynningarnar voru um sam­kvæmi í í­búðar­hús­næði í mið­bænum en einnig bárust til­kynningar úr Háa­leitis- og Bú­staðar­hverfi, Hlíða­hverfi, Garða­bæ, Hafnar­firði og Kópa­vogi.

„Við erum með pínu­lítið fjör­egg í höndunum núna. Að vera með á­stand þar sem við getum haft stóran hluta af sam­fé­laginu opin. Við getum gert miklu meira en við gátum fyrir nokkrum vikum síðan. Á sama tíma horfum við á löndin í kringum okkar sem tekur bara svona tvo og hálfan klukku­tíma til að ferðast til fara í harðari að­gerðir heldur en nokkurn tíman áður í far­aldrinum,“ segir Víðir.

„Það eru lönd eins og Noregur og Dan­mörk sem við miðum okkur mjög oft við. Þar er á­standið bara graf­alvar­legt. Við viljum ekki fara þangað,“ segir Víðir og bætir við að það sé nauð­syn­legt að vernda þann góða árangur sem hefur náðst á síðustu vikum.

„Við höfum náð frá­bærum árangri með sam­stöðu þjóðarinnar og nú þurfum að vernda hann. Við höfum lagt alveg gríðar­lega mikið á okkur. Það hafa lagt alveg ó­hemju­mikið á sig í vetur. Við skulum ekki missa það á okkur núna þegar við erum að fara stað með bólu­setningar.“

Fáir hafa greinst með kórónuveiruna síðustu daga en Víðir hefur áhyggjur af því að tölurnar gætu verið blekkjandi þar sem afar fáir hafa verið að mæta í skimun.